Innlent

Vona að Akrafell hangi á skerinu þar til skemmdir eru metnar

Mynd/Pétur Kristinsson
„Staðan hjá okkur núna er þannig, að það er enn verið að reyna að dæla úr skipinu. Það er líka verið að reyna að loka rýmum til að hefta flæði sjós um skipið.“ Þetta sagði Auðunn F. Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hann sagði að um og eftir hádegið yrði kafað við skipið og skemmdir metnar. Ákvörðun um framhald verði tekin eftir það mat. Einnig sagði hann að svo virtist sem að engin olía hafi lekið í sjóinn.

„Við gerum samt ráð fyrir að það geti gerst og verið er að flytja mengunarvarnarbúnað austur. Þegar eru komnar nokkrar girðingar á svæðið.“

„Dælur hafa ekki undan eins og er og sjórinn er enn að aukast í skipinu. Við eigum von um að það breytist á háflóðinu um hálf eitt. Þá komist stöðugt ástand á.“

Hann sagði sjóinn vera eingöngu í vélarúmi skipsins og að engin slagsíða væri á því.

„Eins og er virðist þetta bara vera aftast í skipinu.“

Auðunn segir að ekki liggi fyrir hve stórt gatið sé.

„Við í sjálfu sér vonum að skipið hangi á skerinu þar til við erum búnir að gera góða skoðun á því. Þá getum við metið aðstæður og hvort óhætt sé að taka skipið af skerinu.“

Mynd/Pétur Kristinsson

Tengdar fréttir

Dælur hafa ekki undan

Talsverður sjór er í vél Akrafells sem misst hefur allt vélarafl og rafmagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×