Innlent

Von á slæmu ferðaveðri suðaustanlands

Birgir Olgeirsson skrifar
Gert er ráð fyrir snjókomu eða slyddu suðaustanlands í dag.
Gert er ráð fyrir snjókomu eða slyddu suðaustanlands í dag. Vísir/Auðunn
Spáð er norðaustan strekkingi suðaustanlands í dag með snjókomu eða slyddu og gæti því orðið slæmt ferðaveður á þeim slóðum. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings inni á vef Veðurstofu Íslands. 

Veðurhorfur á landinu öllu næsta sólarhringinn: Norðaustlæg átt, 5 – 15 metrar á sekúndu, og snjókoma eða él, hvassast og úrkomumest suðaustan til. Bjartviðri um landið suðvestan- og vestanvert í dag, en þykknar upp í nótt með dálítilli snjókomu. Frost 0 til 8 stig.Suðaustan 8 – 15 metrar á sekúndu í fyrramálið, en mun hægari vindur um landið vestanvert. Sum staðar talsverð snjókoma eða slydda suðaustanlands á morgun, annars víða él. Hlýnar lítillega. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga samkvæmt textaspá Veðurstofu Íslands:

Á föstudag:

Austlæg átt 8-13 m/s og él, einkum norðan til á landinu og suðaustanlands. Frost 2 til 10 stig, en um frostmark suðaustan til.

Á laugardag:

Austlæg átt 8-13 m/s og dálítil él, en bjart að mestu vestanlands. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum N-lands.

Á sunnudag:

Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en líkur á stöku éljum úti við ströndina. Kalt í veðri.

Á mánudag:

Ört vaxandi sunnanátt með talsverðri snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, einkum S- og V-lands. Hlýnandi veður.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir norðvestlæga átt með snjókomu og kólnandi veðri, en úrkomulítið vestast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×