Innlent

Von á öðrum stormi í kvöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er von á stormi í kvöld.
Það er von á stormi í kvöld. Vísir/Ernir
Veðurstofan varar við stormi á öllu landinu en í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að þó að suðvestan stormurinn sem geisaði á landinu í gærkvöldi og nótt sé í rénun þá sé von á öðrum sunnan stormi strax í kvöld.

Það nær í raun ekki að lægja almennilega í dag þar sem það tekur vindhraða nokkurn tíma að fara niður á við eftir storm eins og í gærkvöldi og nótt og svo byrjar að hvessa aftur seinnipartinn. Rigning fylgir storminum og verður hún töluverðu á vestanverðu landinu.

Sunnanáttin er þó hlý og er því spáð að hiti fari yfir 10 stig á Austurlandi í nótt en þar verður lítil eða engin rigning.

Á morgun, laugardag, er svo útlit áfram fyrir hvassan vind en hann verður vestlægari og í stað rigningar koma skúrir eða él með kaldara veðri. Það er síðan betra veður í kortunum fyrir sunnudaginn, þó aðeins blási og rigni sunnan-og vestanlands. Eftir helgi er svo útlit fyrir rólegt veður á landinu.

Veðurhorfur á landinu:

Suðvestan 15-23 m/s í fyrstu og dálitlir skúrir eða él. Hiti 0 til 5 stig. Dregur úr vindi með morgninum, 10-18 eftir hádegi. Gengur í sunnan 15-23 undir kvöld með rigningu, talsverð vestantil á landinu. Hlýnar í veðri.

Suðvestan hvassviðri eða stormur á morgun með skúrum eða éljum og kólnar smám saman, en rofar til um landið austanvert.

Á laugardag:

Suðvestan 15-23 m/s, en 13-20 síðdegis, hvassast um landið norðanvert. Skúrir eða él vestantil og hiti 0 til 5 stig. Rigning um morguninn á Suðausturlandi, en annars yfirleitt þurrt um landið austanvert og hiti 7 til 12 stig þar fram eftir degi.

Á sunnudag:

Sunnan 5-10 og úrkomulítið, en 8-15 síðdegis með rigningu og súld. Hægari og þurrt norðaustantil á landinu. Hiti 2 til 8 stig.

Á mánudag:

Suðlæg eða breytileg átt, 3-8. Þurrt að kalla á landinu, en víða skýjað. Hiti 3 til 9 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Austlæg átt ríkjandi. Úrkoma af og til um landið austanvert, en yfirleitt þurrt vestanlands. Hiti frá 1 stigi á Norðausturlandi, upp í 9 stig að deginum á Vesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×