Fótbolti

Völdu Messi frekar en Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Mess tileinkaði syni sínum Thiago Messi verðlaunin.
Lionel Mess tileinkaði syni sínum Thiago Messi verðlaunin. Vísir/Getty
Lionel Messi var í gær kosinn besti leikmaður spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á árinu 2015 en það eru forráðamenn deildarinnar sem útdeilda þessum verðlaunum.

Þetta er í sjötta sinn sem Messi er kosinn bestur í deildinni en Cristiano Ronaldo hafði endað fimm ára einokun Messi í fyrra. Messi var líka kosinn besti framherji deildarinnar.

Barcelona átti besta þjálfarann (Luis Enrique) og besta markvörðinn (Claudio Bravo) en besti varnarmaðurinn (Sergio Ramos) og besti miðjumaðurinn (James Rodríguez) komu frá Real Madrid. Ramos var valinn besti varnarmaðurinn fjórða árið í röð.

„Ég tek stoltur við þessum verðlaunum fyrir framan alla þessa frábæru leikmenn úr La Liga. Ég tileinka syni mínum þessi verðlaun þótt að hann skilji ekki ennþá hvað þau þýða," sagði Lionel Messi í gær.

Hinn 28 ára gamli Lionel Messi skoraði 43 deildarmörk á síðasta tímabili og var aðalmaðurinn á bak við sigur Barcelona í spænsku deildinni, spænska bikarnum og Meistaradeildinni.

Cristiano Ronaldo fór ekki tómhentur heim en markahæsti leikmaður spænsku deildarinnar á síðasta tímabili með 48 mörk fékk sérstök áhorfendaverðlaun.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo munu keppa um önnur verðlaun í byrjun nýs árs þegar Gullbolti FIFA verður afhentur en þar koma þeir til greina ásamt Brasilíumanninum Neymar.

Verðlaunin sem voru afhent í gær:

Besti markvörður: Claudio Bravo (FC Barcelona)

Besti varnarmaður: Sergio Ramos (Real Madrid CF)

Besti miðjumaður: James Rodríguez (Real Madrid CF)

Besti sóknarmaður: Lionel Messi (FC Barcelona)

Besti þjálfari: Luis Enrique Martínez (FC Barcelona)

Besti leikmaður: Lionel Messi (FC Barcelona)

Besti leikmaður frá Ameríku: Neymar Jr. (FC Barcelona)

Besti leikmaður frá Afríku: Sofiane Feghouli (Valencia CF)

Áhorfendaverðlaunin: Cristiano Ronaldo (Real Madrid CF)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×