Skoðun

Völd – og tengsl

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar

Stundum er eins og fólki þyki óþægilegt að tala um vald, eins og það sé eitthvað neikvætt.  Konur tala t.d. frekar um að þær sækist eftir áhrifum en völdum. Fólk tengir vald oft við formleg völd eins og stjórnvöld og lögreglu – en síður við eigin persónulegu tilveru. Vald og valdatengsl á milli einstaklinga og hópa eru  lítið rædd almennt. En vald er vitaskuld lykilatriði í lífi okkar. Meðvitund um vald og valdaleysi er nauðsynlegt til að átta sig á orsökum og afleiðingum í flestu sem á daga okkar drífur og sannarlega öll samskipti okkar. Tökum dæmi, með alhæfingardassi, af tveim einstaklingum sem rugla saman reitum.

 Annar einstaklingurinn er líklegur til að fá félagsmótun og þjálfun í því að sýna frumkvæði, taka áhættu, vera virkur, sýna styrk og alls ekki tjá tilfinningar – því það þykir merki veiklyndis.  Þessi einstaklingur hefur margar fyrirmyndir þar sem þessir eiginleikar eru dáðir og hafðir upp til vegs og virðingar og auðvelt er fyrir okkar einstakling að samsama sig við. Í menningarheimi einstaklingsins er ofbeldi normaliserað t.d. í íþróttum og klámi sem nýtur mikilla vinsælda meðal hópverja. Hópurinn er í valdastöðu og meðal aðferða sem hann notar til að viðhalda valdi sínu er að nota grín til að  niðurlægja valdaminni hópa. Ef einstaklingur í þessum hópi tileinkar sér ekki þessi viðhorf og hegðun, getur hann átt á hættu að verða úthýst. Þessi hópur hefur alltaf verið með skilgreiningarvaldið og samfélagsmenningin öll litast af hagsmunum hans.

Skoðum nú hinn helminginn af þessu tvíeyki okkar. Sá einstaklingur er mótaður og þess vænst af honum að leggja þunga áherslu á útlit sitt – mjög tiltekið útlit  – og að eðlilegt og sjálfsagt sé að eyða ómældum tíma og fjármunum í ýmiskonar verk og viðhald á útliti, einstaklingurinn er nefnilega gjarnan skilgreindur út frá útliti sínu frekar en öðrum persónueinkennum. Hógværð, iðjusemi, umhyggja, þjónusta – og valdaleysi eru eiginleikar sem einstaklingum er uppálagt að temja sér. Fyrirmyndir hópsins eru gjarnan bjargarlausar, óvirkar og kynferðislega bjóðandi.  Raunar er menningin öll lituð af kynferðislegum táknum (klámvæðingu) og miklar kröfur til þessara einstaklinga að vera kynþokkafullir  – en á sama tíma er bannað  að vera of virkur kynferðislega – það getur valdið útskúfun. Í sögulegu samhengi er ógjarnan talað um þennan hóp.  Ef einstaklingur í þessum hópi „fer upp á dekk“  – sýnir valdatilburði - fær sá hinn sami oft glósur um að vera frekur, yfirgangssamur og stjórnsamur og uppsker jaðarsetningu.

Í ljósi þess að kynbundið ofbeldi er faraldur, þá hlýtur að vera rík ástæða til þess að skoða valdatengsl framangreindra hópa, sem leiða af sér að öryggi annars er fórnað fyrir frelsi hins. Það er útilokað að skilja ástæður þess að annar hópurinn býr við mismunun og hinn forréttindi, nema að skoða ólíka félagsmótun og innrætingu í hópunum.

Allir þurfa að axla ábyrgð á gjörðum sínum – en við munum ekki vinna bug á kynbundnu ofbeldi án þess að skilja orsakir þess.

Forréttindablinda, ofbeldismenning og kvenfyrirlitning eru samofin í viðhorf okkar og menningu. Endurskoðun og endurskilgreining á karlmennsku og kvensku er lífsnauðsynleg - skólakerfið gegnir þar lykilhlutverki.

Þessi grein er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×