Innlent

Vodafone neitaði að afhenda gögn

Sveinn Arnarsson skrifar
Bára Mjöll Þórðardóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone.
Bára Mjöll Þórðardóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone. vísir
Vodafone hefur ekki sent Persónuvernd gögn er varða skoðun Hafnarfjarðarkaupstaðar á símtalaskrám kjörinna fulltrúa bæjarins.

Þrír bæjarfulltrúar minnihlutans í bænum kvörtuðu til Persónuverndar þar sem þeir fara fram á að rannsaka það hvort embættismenn bæjarins hafi haft leyfi til þess að skoða símtalaskrár þeirra. Að þeirra sögn hafi bæjarstjóri tilkynnt skoðunina eftir á á fundi bæjarráðs.

Bára Mjöll Þórðardóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir það hafa skipt máli að vita hvar valdmörk Persónuverndar og Póst- og fjarskiptastofnunar liggja.

„Ekki lá skýrt fyrir hvar valdmörkin í umræddu máli lágu. Því óskaði Vodafone eftir því að Persónuvernd myndi taka afstöðu til þess hvort Persónuvernd eða Póst- og fjarskiptastofnun væri bær til að fjalla um málið. Þegar skorið hefur verið úr því hvar valdmörkin liggja mun Vodafone að sjálfsögðu afhenda umrædd gögn,“ segir Bára Mjöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×