Innlent

Vísindamenn NASA við rannsóknarstörf hér á landi

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Vísindamenn á vegum NASA, bandarísku geimferðastofnunarinnar, eru staddir hér á landi til að mæla áhrif loftlagsbreytinga á jöklum í Grænlandi. Við mælingarnar er notuð sérútbúin rannsóknarflugvél af gerðinni Lockheed U-2 en gengur nú undir heitinu ER-2 sem stendur fyrir Earth Resources.

Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, á tvær slíkar vélar en áður voru þær meðal annars notaðar af bandarísku leyniþjónustunni við njósnir. Vélin er í dag notuð við rannsóknir en hún er útbúin fullkomnum mælitækjum og fylgja vélinni hingað til lands um 30 vísindamenn. Þá er hún hönnuð til að fljúga í hárri lofthæð, eða rúmlega 70.000 fetum og þarf flugstjóri vélarinnar því að klæðast sérstökum geimbúning.

Denis Steele, flugstjóri vélarinnar, segir að vélin sé einstök að mörgu leyti, meðal annars sé lending hennar ein sú erfiðasta sem um getur en að henni koma tveir flugstjórar. Annar flýgur vélinni, en hinn hefur það hlutverk að fylgja flugvélinni eftir í sérstökum bíl sem keyrir á allt að 200 kílómetra hraða.

Ástæða þess að lending vélarinnar er erfið er að engin hliðarhjól eru á vélinni og því segir Denis að þetta sé eins og að lenda 10 tonna reiðhjóli. Fréttastofa fékk að fylgjast með lendingu vélarinnar í gær frá nokkrum sjónarhornum eins og sjá má hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×