Lífið

Vísinda-Villi með Fender að vopni

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Villi mundar hér Fender-gítarinn forláta sem hann samdi og spilaði öll lög 200.000 naglbíta á, en hann spilar stóra rullu í sýningunni.
Villi mundar hér Fender-gítarinn forláta sem hann samdi og spilaði öll lög 200.000 naglbíta á, en hann spilar stóra rullu í sýningunni. Vísir/GVA
„Ég er búinn að vera rosa mikið í því að fara í skóla og halda fyrirlestra og útskýra vísindi fyrir krökkunum en hérna er þetta búið að stækka alveg svakalega og þetta er orðin heljarinnar leiksýning. Hún er miklu, miklu flottari en ég þorði að vona, ef ég á að segja eins og er. Og það er bara því frábæra fólki að þakka sem kemur að sýningunni. Þau eru öll snillingar. Það eru alls konar pælingar sem er verið að kynna hér, þetta er hádramatískt og stundum rómantískt meira að segja og alltaf mjög fyndið samt – og töff, það er mjög mikilvægt,“ segir Vilhelm Anton Jónsson eða Vísinda-Villi sem hefur verið duglegur við að kynna ótrúlegan heim vísindanna fyrir börnunum bæði í sjónvarpi og í heimsóknum sínum í skóla landsins. Núna er komið að því að Villi færi sig yfir á leiksviðið með tilraunirnar sínar en frumsýningin verður næstkomandi laugardag, þann 4. febrúar.

„Þetta eru ég, Vignir Rafn Valþórsson, sem er líka leikstjórinn, og svo hún Vala Kristín sem erum að semja sýninguna. Og svo frábært fólk sem kemur að henni sem listrænir stjórnendur. Þetta er dálítill tími sem við höfum haft til að vinna sýninguna og hún er orðin miklu stærri en ég bjóst við áður en við byrjuðum – það eru komin alls konar söngatriði og næstum því dansatriði líka – alls konar geggjað.

Sagan er síðan þannig að Villi er að búa sig undir vísindasýningu og svo kemur Vala Kristín leikkona til að hjálpa honum að læra á leikhúsið – hvernig það er hægt að nota leikhúsið til að gera tilraunirnar og vísindin flottari. Töfrar leikhússins og töfrar vísindanna mætast þarna. Síðan byrjar sýningin á rafmagnsgítar!“

Þetta er ansi merkilegur gítar, ekki satt?

„Jú, ég er með gamla Fenderinn minn sem allt Naglbítastöffið er samið og spilað á. Ég hef átt hann í mörg, mörg ár og þetta er uppáhaldsgítarinn minn.“

Leikur hann stórt hlutverk í sýningunni?

„Já, já, enda er rafmagnsgítar mest töff hljóðfæri í heiminum og það væri hálf asnalegt að setja upp sýningu og útskýra það ekki fyrir krökkunum – annars væri ég bara að plata og ekki vil ég gera það.“

Hvenær fékkstu áhuga á vísindum og af hverju vísindasýning?

„Ég er eiginlega búinn að hafa hann í mörg ár, bara frá því að ég man. Síðan fór ég í heimspeki í Háskólanum. Mér finnst svo mikilvægt að tala við krakka um að vera forvitin og kenna þeim gagnrýna hugsun svo að þau verði betri kynslóð en sú á undan, því að þau eru framtíðin. Það er svo mikilvægt fyrir krakka að fá að vera hissa og forvitin og kveikja á þessum ótrúlega magnaða heim sem við búum í. Það er svo sorglegt að fara í gegnum lífið án þess að hugsa um heiminn, það er svo leiðinlegt þegar hlutir verða hversdagslegir – þetta er allt ótrúlegt kraftaverk, það að við skulum yfirhöfuð vera hérna og að hlutirnir séu eins og þeir eru.

Ég vil virkja forvitnina og gagnrýnina í börnum og vil að þau séu alltaf forvitin – þau eiga eftir að stýra heiminum þegar ég verð á elliheimili.

Ég vil bara að heimurinn verði betri og betri. Þetta er mín leið til þess – að gera það spennandi að læra vísindi og kynna þetta þannig að þeim finnist þetta flott, en alls ekki fjarlægt eða fráhrindandi.

Mikið af þessu er flókið, en það er ekkert mál af því að fullt af krökkum eru eldklárir – það er ekkert allt fyrir alla í vísindum en ég vil samt ekki að krakkar upplifi vísindi sem eitthvað skelfilegt og leiðinlegt sem skiptir ekki máli því þetta snýst nefnilega um það hvernig heimurinn okkar virkar – það er svo gaman að skilja gangverkið.

Þetta er rosalega skemmtilegt og ég meina það, alveg innilega frá hjartanu. Áfram vísindi og listir!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×