Viðskipti innlent

VÍS kaupir um 22 prósenta hlut í Kviku

hörður ægisson skrifar
Kaupverðið á 22 prósenta hlut nemur um 1.650 milljónum.
Kaupverðið á 22 prósenta hlut nemur um 1.650 milljónum. Vísir/Anton Brink
Tryggingafélagið VÍS hefur gengið frá kaupum á um 22 prósenta hlut í Kviku fjárfestingabanka og nemur kaupverðið um 1.650 milljónum króna, samkvæmt heimildum Vísis. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins til að fara með virkan eignarhlut í bankanum. VÍS verður í kjölfarið stærsti einstaki hluthafi Kviku.

Fyrir eru í hluthafahópi Kviku banka tveir stærstu einkafjárfestarnir í VÍS með samanlagt fimmtán prósenta hlut. Hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, fyrrverandi aðaleigendur Skeljungs, eignuðust þannig ríflega átta prósenta hlut í bankanum í síðasta mánuði á meðan félagið Grandier ehf., sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og meðfjárfesta, keypti um sjö prósenta hlut.

Kaupin voru gerð aðeins nokkrum dögum eftir að stjórnir Kviku og Virðingar höfðu undirritað viljayfirlýsingu í lok nóvember um að hefja undirbúning að samruna félaganna. Óvíst er hvað kaup VÍS á stórum eignarhlut í Kviku muni hafa fyrir boðaða sameiningu fjárfestingabankans og Virðingar.

Miðað við kauptilboð VÍS er gert ráð fyrir að tryggingafélagið kaupi hlutabréfin í Kviku á genginu 5,4 krónur á hlut, samkvæmt heimildum Vísis. Það þýðir að bankinn er metinn á ríflega sjö milljarða í viðskiptunum en í lok þriðja ársfjórðungs 2016 var eigið Kviku um 6,2 milljarðar.

Uppfært kl. 18:05

VÍS hefur sent tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem félagið staðfestir að hafa keypt 21,8 prósenta hlut í Kviku og nemur heildarkaupverðið um 1.655 milljónum króna. Er kaupverðið greitt að fullu með reiðufé.

Seljendur á hlutum í Kviku eru Titan B ehf. (7,27%), Ingimundur hf. (6,61%), Fagfjárfestasjóðurinn Norðurljós (5,77%), Kvika banki hf. (1,27%) og M-804 ehf. (0,92%).

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, er eigandi eignarhaldsfélagsins Títan B. Skúli hefur verið á meðal stærstu eigenda bankans allt frá því að hann leiddi hóp fjárfesta sem keyptu MP banka í apríl 2011. MP banki sameinaðist Straumi fjárfestingabanka fjórum árum síðar undir nafninu Kvika.

Í tilkynningu er haft eftir Jakobi Sigurðssyni, forstjóra VÍS, að með þessum viðskiptum eignist félagið hlut í öflugu félagi sem stendur frammi fyrir spennandi tækifærum. Starfsemi tryggingafélaga byggist á tveimur meginstoðum; vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Auk þess að vera gott fjárfestingatækifæri stuðla kaupin að dreifingu áhættu í eignasafni félagsins og þjóna þannig hagsmunum VÍS vel til lengri tíma. Af því njóta bæði viðskiptavinir og hluthafar góðs.“​





Fleiri fréttir

Sjá meira


×