Viðskipti innlent

Virði eigna Kaupþings jókst um tæpa ellefu milljarða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Stefán
Bókfært virði eigna Kaupþings í lok júní 2014 nam 788,8 milljörðum króna og jókst um 10,7 milljarða eða um 1,4% á fyrri helmingi ársins. Því til viðbótar hafði félagið greitt 17,5 milljarða króna á vörslureikning til að mæta umdeildum forgangskröfum. Mælt í evrum jókst verðmæti eignasafnsins um 210 milljónir eða um 4,3%. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Kaupþings hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2014 sem birtur var í dag og sendur fjölmiðlum.

Árshlutareikningurinn sem er óendurskoðaður, er gerður í samræmi við lög um ársreikninga og hefur að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og yfirlit um sjóðstreymi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Helstu atriði árshlutareikningsins

-Bókfært virði eigna Kaupþings nam 788,8 milljörðum króna samanborið við 778,1 milljarð í árslok 2013.

-Hrein virðisbreyting eigna nam 36,5 milljörðum króna.

-Neikvæð gengisáhrif námu 12,9 milljörðum króna.

-Greiðslur inn á vörslureikning vegna umdeildra forgangskrafna námu 2,6 milljörðum króna.

-Handbært fé Kaupþings nam 413,1 milljarði króna samanborið við 418,5 milljarða í árslok 2013.

-Útistandandi kröfur námu 2.856,7 milljörðum króna og hafa lækkað um 22,6 milljarða það sem af er ári.

Hrein virðisbreyting eigna var jákvæð á tímabilinu og nam 36,5 milljörðum króna, en neikvæð gengisáhrif vegna styrkingar krónunnar námu 12,9 milljörðum og greiðslur inn á vörslureikning vegna umdeildra og seint framkominna forgangskrafna námu 2,6 milljörðum. Handbært fé Kaupþings stóð í 413,1 milljarði króna við lok tímabilsins og lækkaði um 5,4 milljarða eða um 1,3%. Lækkunin skýrist m.a. af neikvæðum áhrifum vegna styrkingar krónunnar. Mælt í evrum jókst handbært fé um 40 milljónir eða um 1,5%. Heildareignir Kaupþings í erlendum myntum eru metnar á 626,2 milljarða króna en eignir í íslenskum krónum eru metnar á 162,6 milljarða.

Útistandandi kröfur lækka

Samþykktar kröfur í kröfuskrá námu 2.792,6 milljörðum króna og hafa þær lækkað um 10,9 milljarða á tímabilinu. Að meðtöldum ágreiningskröfum námu útistandandi kröfur á hendur Kaupþingi 2.856,7 milljörðum króna og hafa þær lækkað um 115,5 milljarða á tímabilinu. Ástæður þessarar lækkunar má að mestu leyti rekja til úrlausna ágreiningsmála.

Rekstrarkostnaður lækkar um 6,9%

Rekstrarkostnaður Kaupþings á fyrri helmingi ársins nam 2,7 milljörðum króna og lækkaði um 0,2 milljarða eða um 6,9% frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður tímabilsins á ársgrundvelli, nam 0,3% af nafnvirði eigna sem voru 2.003 milljarðar króna í lok tímabilsins og 0,7% af bókfærðu virði eigna. Tæplega helmingur rekstrarkostnaðarins er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar. Þá námu greiðslur Kaupþings vegna virðisaukaskatts 140 milljónum króna, eða sem svarar til rúmlega 5% af heildarkostnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×