Erlent

Vinur árásarmannsins í München handtekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið 16 ára gamlan vin David Ali Sonboly, sem myrti níu manns í verslunarmiðstöð í München á föstudaginn. Lögregluna grunar að vinurinn hafi vitað af ætlunum Sonboly.

Lögreglan hefur ekki gefið upp nafn vinarins en hann er frá Afganistan og gaf sig fram til lögreglu eftir árásina.

Sjá einnig: Sonboly skipulagði árásina í heilt ár

Samkvæmt AFP fréttaveitunni kom fram ósamræmi í sögu hans við yfirheyrslu og því hafi hann verið handtekinn. Þá er hann einnig talinn hafa birt sambærileg skilaboð á Facebook og Sonboly notaði til að laða fórnarlömb til sín.

Færsla hans sneri að samkomu í kvikmyndahúsi í borginni.

Sonboly hafði búið til falsaðan Facebookreikning og notað hann til þess að laða fólk til McDonalds skyndibitastaðarins þar sem hann hóf skothríð sína. Hann hafði boðið fólki mat og drykk, en ekki liggur fyrir hvort að það hafi heppnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×