Sport

Vinsælasti MMA-blaðamaður heims settur í lífstíðarbann hjá UFC

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Helwani var valinn MMA-blaðamaður ársins fyrr á árinu og hann tekur hér við verðlaunum sínum.
Helwani var valinn MMA-blaðamaður ársins fyrr á árinu og hann tekur hér við verðlaunum sínum. vísir/getty
UFC 199 fór fram um síðustu helgi og var gríðarlega vel heppnað. Eftir kvöldið var samt mest talað um ótrúlegan atburð sem átti sér stað fyrir aðalbardaga kvöldsins.

Þá var blaðamanninum Ariel Helwani vísað út úr Forum-höllinni í Las Vegas. Honum var svo tilkynnt um að hann væri ekki velkominn aftur á viðburði hjá UFC.

„Í stuttu máli var mér tjáð að ég væri kominn í lífstíðarbann hjá UFC. Ástæðan er sú að ég sagði frá endurkomu Brock Lesnar áður en UFC gerði það,“ sagði Helwani en blaðamannapassinn var líka fjarlægður af tveim samstarfsmönnum hans.

Í ljós kom að frétt hans um málið var rétt og hann var því settur í lífstíðarbann af UFC fyrir að segja frá saklausri frétt.

„Dana White [forseti UFC] sagði ítrekað við mig að ég ætti bara að fara að fjalla um Bellator. Ég spurði hvað ég hefði gert af mér og þá sagði hann að ég væri of neikvæður,“ bætti Helwani við.

Hann missti starf sitt hjá Fox sjónvarpsstöðinni fyrr á árinu. Hermt var að ástæðan væri sú að hann væri að taka viðtöl og fjalla um viðfangsefni sem væru UFC ekki þóknanleg.

Helwani er gríðarlega vinsæll hjá bæði bardagaköppunum í UFC sem og hjá aðdáendum. Það er hreinlega klappað fyrir honum á blaðamannafundum er hann spyr spurninga.

Þetta útspil hjá UFC þykir vera með hreinum ólíkindum og hefur skemmt ímynd sambandsins.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×