Lífið

Vinnur rökræðu um krot á veggi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Halla vinnur mikið með samspil texta og mynda.
Halla vinnur mikið með samspil texta og mynda. Vísir/Vilhelm
Halla Birgisdóttir, listakona gerir jóladagatal Norræna hússins í ár, en 23 aðrir listamenn taka þátt í dagatalinu. Halla verður einnig með sýningu í anddyri Norræna hússins í tengslum við jóladagtalið.

„Ég vinn mikið með samspil texta og mynda. Þannig að með því að teikna myndir og gera smá texta verða til litlar frásagnir,“ en umfjöllunarefni Höllu er mannfólkið á jólunum.

„Mig langaði ekki að hafa þetta rosalega jólalegt, en þetta gerist um jólin. Þetta snýst um fólk en það er einhver alvarlegur undirtónn,“ útskýrir Halla en persónurnar eru skáldaðar en eiga mögulega leyndar fyrirmyndir.

„Það er til dæmis ein sem vill ekki fara of snemma í jólaskap. Með því að skoða þetta út frá mínu sjónarhorni langar mig líka til þess að hjálpa fólki að finna með sjálfu sér hvað því finnst jólin snúast um.“

Myndirnar teiknar Halla beint á veggina. „Mamma og pabbi voru að grínast með það að þegar ég var lítil teiknaði ég stórt krot á vegginn heima og fékk skammir fyrir. Ég fæ auðvitað ekki skammir núna, þannig ég er svona að vinna rökræðurnar um hvort það megi teikna á veggi tuttugu árum síðar.“

Áratugagamlar rökræður eru þó ekki eina ástæða þess að Halla kýs að teikna á veggi. „Líka kannski að mér finnst þetta verða svolítið beinna. Kannski vekur þetta líka upp einhverjar spurningar hjá fólki.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×