Lífið

Vinnur með konum á átakasvæðum

Elín Albertsdóttir skrifar
Í starfi sínu hittir Magnea framfarasinnaðar konur, klárar og skemmtilegar sem er í mótsögn við ástand kvenna almennt og gefur stundum skakka mynd af veruleikanum.
Í starfi sínu hittir Magnea framfarasinnaðar konur, klárar og skemmtilegar sem er í mótsögn við ástand kvenna almennt og gefur stundum skakka mynd af veruleikanum. MYND/STEFÁN
Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur hefur undanfarið ár unnið að verkefnum fyrir sænsku samtökin Kvinna till kvinna í Jerúsalem. Samtökin styðja við bakið á kvenréttinda- og friðarsamtökum á átakasvæðum. Þau starfa í Afríku,

Mð-Austurlöndum og Balkanskaga.

Magnea hefur víðtæka reynslu af starfi með konum á stríðs- og átakasvæðum. Á árunum 2006-2007 starfaði hún í Afganistan þar sem hún bjó í tjaldbúðum uppi í fjöllum og á árunum 2010-2013 fyrir UN Women í Bosníu og Hersegóvínu og Kósóvó með aðsetur í Sarajevó og Pristína á vegum Friðargæslu Íslands. Þar kynntist hún sænsku samtökunum Kvinna till kvinna. „Þegar ég var að vinna fyrir UN Women kynntist ég þessum kvennasamtökum. Forstöðukona þeirra í Kósóvó varð góð vinkona mín. Þegar mér bauðst tækifæri til að vinna verkefni fyrir þau sló ég til,“ útskýrir Magnea.

Samtökin hafa starfað í Palestínu og Ísrael með aðsetur í Austur-Jerúsalem frá árinu 2002. „Samtökin vinna á ófriðarsvæðum bæði þar sem eru eða hafa verið stríðsátök eins og í Sýrlandi og á Balkanskaganum, eða þar sem eru viðvarandi átök eins og í Palestínu-Ísrael. Markmiðið er að styðja við bakið á þarlendum kvenréttinda- og friðarsamtökum. Þróunarstofnun Svíþjóðar veitir samtökunum stuðning til starfseminnar auk annarra, eins og utanríkisráðuneyti Hollands. Í Palestínu og Ísrael eru sextán kvennasamtök sem njóta stuðnings Kvinna till kvinna. Sex starfa á Vesturbakkanum, þrjú í Gasa og sjö í Ísrael,“ útskýrir Magnea.

Fullgilding Kvennasáttmála

„Það er víða pottur brotinn þegar kemur að réttindum kvenna, sér í lagi í Palestínu. Stórt framfaraskref var tekið vorið 2014 þegar palestínsk yfirvöld ákváðu að fullgilda 48 alþjóðasamninga, tólf í senn, þar með talið Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið fullgiltur. Yfirvöld eru að vinna að fyrstu skýrslunni sem lögð verður fyrir nefndina um afnám alls misréttis gagnvart konum. Kvenréttindasamtök munu síðan skrifa skuggaskýrslu og koma henni á framfæri til nefndarinnar,“ upplýsir Magnea.

Þar sem Magnea vinnur að verkefnum, sem lúta að því að aðstoða kvenréttindasamtökin sextán, er hún nokkuð á ferðinni. „Ég fer reglulega til Ramallah, Nablus og annarra staða á Vesturbakkananum, til Gasa og Ísrael. Bæði hitti ég starfsmenn samtaka á þessum svæðum og sömuleiðis konur sem samtökin vinna með eða aðstoða. Meðal verkefna sem þau sinna er að veita konum lagalega aðstoð, aðstoða konur sem hafa orðið fyrir margvíslegum missi vegna hernámsástandsins, vinna að réttindum kvenna með fötlun, og fleira mætti telja. Samtökin Kvinna till kvinna hafa einnig unnið að því að gefa kvenréttindakonum tækifæri til að huga betur að eigin öryggi og velferð til að fyrirbyggja það að þær brenni út vegna álagsins sem vanalega fylgir hugsjónastarfinu. Í starfi mínu hitti ég framfarasinnaðar konur, klárar og skemmtilegar, sem er í mótsögn við ástand kvenna almennt og gefur mér stundum skakka mynd af veruleikanum.“

Friðarumleitanir

Magnea segir að það sé ófriðsælt á þessu svæði. „Það snertir mig þó ekki beint heldur heimamenn. Hermenn og lögregla eru alls staðar á Vesturbakkanum auk vopnaðra öryggisvarða og landtökufólks. Það hefur aldrei náðst friður á þessu svæði þrátt fyrir friðarumleitanir og þó orðið hafi ákveðin framför í fyrstu hefur ástandið í raun frekar versnað undanfarna tvo áratugi eftir undirritun Óslóarsamninganna,“ segir Magnea. Þar vísar hún til sögulegra friðarviðræðna í Ósló þar sem Ísrael og Palestína sömdu um frið árið 1993. Utanríkisráðherra Noregs, Jörgen Holst, stjórnaði viðræðunum en samningurinn var síðan undirritaður í Washington. Yasser Arafat, þáverandi forseti Palestínu, hlaut friðarverðlaun Nóbels ásamt Yitzhak Rabin, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, og Shimon Peres, þáverandi utanríkisráðherra, vegna friðarsamkomulagsins.

„Það var gert ráð fyrir að endanlegt samkomulag lægi fyrir árið 1999 en það átti sér ekki stað. Þess í stað varð önnur uppreisn (intifada) í Palestínu árið 2000 en hin fyrri var undanfari Óslóarsamninganna. Síðan þá hafa verið friðarumleitanir en án árangurs, meðal annars vegna meirihlutakosningar Hamas árið 2006, sem leiddi til átaka milli Fatha og Hamas, aðskilnaðar milli Vesturbakkans og Gasa, og fangelsunar þingmanna Hamas, sem saman gerði það að verkum að löggjafarþing Palestínu hefur verið óstarfhæft síðan 2007,“ upplýsir Magnea. „Ég hef stundum sagt að verstu örlög Palestínumanna hafi verið að geta ekki kosið Besta flokkinn í staðinn fyrir Hamas, þegar Palestínumenn notuðu atkvæði sitt til að mótmæla meintu ráðaleysi og spillingu meðal gömlu stjórnmálaflokkanna.“

Magnea með konum á Gasa-svæðinu.
Hernámsástand

„Samkvæmt Óslóarsamningnum II frá 1995 var Vesturbakkanum skipt upp í svæði A, B og C. Stjórn svæðanna er í grófum dráttum sú að svæði A (18% landsvæðisins) var sett undir stjórn Palestínumanna, B (22%) undir stjórn Palestínumanna nema öryggismálin, sem enn eru í höndum lögreglu og hers Ísraels, og svæði C, 60% Vesturbakkans, undir stjórn Ísraels, þar með talin Austur-Jerúsalem sem var innlimuð af Ísrael árið 1967. Sjálfstæði Palestínu og varanlegur friður hefur aftur á móti ekki átt sér stað. Þess í stað eru mun fleiri landtökubyggðir, vegatálmar, lögregla og her um allan Vesturbakkann þar sem öllu er stjórnað í krafti strangra leyfisveitinga. Sem dæmi þurfa einstaklingar sem búa á Vesturbakkanum að fá atvinnuleyfi hjá ísraelskum stjórnvöldum til að geta stundað atvinnu í Jerúsalem og ef það fæst er viðkomandi einungis heimilt að vera í borginni frá kl. 8-19 hvern dag og má ekki keyra bíl í Jerúsalem. Brot á reglunum geta valdið því að viðkomandi er sviptur atvinnuleyfi. Þar fyrir utan þarf að endurnýja atvinnuleyfið árlega,“ segir Magnea.

„Það getur komið upp afar flókin staða ef kona sem býr á Vesturbakkanum og maður í Jerúsalem verða ástfangin og vilja búa saman í Jerúsalem. Þá þurfa þau að vera gift og síðan að sækja um sérstakt búsetuleyfi fyrir hana til að búa í Jerúsalem sem getur tekið mörg ár. Síðan þarf að endurnýja búsetuleyfið árlega. Ef eiginmaðurinn fellur frá eru allar líkur á því að búsetuleyfi hennar verði ekki endurnýjað þrátt fyrir að hún hafi búið þar til fjölda ára. Margir fá ekki byggingarleyfi á svæði C og byggja því í leyfisleysi sem síðan er notað sem réttlæting til að jafna húsin við jörðu. Íbúar Gasa komast hvorki lönd né strönd án ferðaleyfis frá Ísrael og Hamas. Þá eru ýmis lög og reglur í gildi sem fela í sér brot á mannréttindum og mannúðarlögum,“ segir Magnea, sem hefur orðið vitni að erfiðu og einangruðu lífi Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gasa.

Tveir heimar

Þegar hún er spurð hvernig sé að vera þarna, svarar hún: „Þetta er áhugaverður staður. Lítið landsvæði en gríðarlegur fjölbreytileiki. Á fáeinum metrum fer maður úr Austur-Jerúsalem, þar sem meirihluti íbúanna eru Palestínumenn, yfir í Vestur-Jerúsalem, þar sem blasir við allt annar heimur, samfélag rétttrúnaðargyðinga sem er mjög framandi. Á sama tíma virkar Vestur-Jerúsalem með sínum veitingastöðum, börum og lífsstíl mun líkari því sem við eigum að venjast samanborið við arabíska hlutann. Ég lifi eðlilegu lífi upp að því marki sem hægt er í hernámsástandi þar sem vopn og brynvarðir bílar eru alls staðar, þar með taldir landtökumenn og öryggisverðir sem ganga um með hríðskotabyssur eða skammbyssur í buxnastrengnum. Ég hef aldrei orðið vitni að átökum sjálf en þurfti að vinna að heiman í þrjá daga á meðan mestu óeirðirnar í Jerúsalem stóðu yfir í fyrravor.

Um jólin þegar ég var heima var sýndur matreiðsluþáttur frá Jerúsalem í Ríkissjónvarpinu. Það sem ég sá úr þættinum var allt svo sjarmerandi og skemmtilegt, flestir virtust lifa í sátt og samlyndi. Því miður er það fjarri veruleikanum en vonandi ekki draumsýn sem aldrei mun rætast. Friðsamlegur fjölbreytileiki er svo fallegur en hérna hafa verið átök í meira en 60 ár sem ekki sér fyrir endann á,“ segir Magnea.

Öll trúarbrögð

Magnea skreppur stundum til borgarinnar Tel Avív sem er klukkustundar akstur frá Jerúsalem en allt annar heimur. „Tel Avív er fín borg. Minnir mann á borg í Evrópu, til dæmis Kaupmannahöfn. Og lífið virkar svo afslappað í samanburði við spennuna í Jerúsalem: fólk að rölta eða skokka, í sólbaði á ströndinni, á söfnum, börum og veitingastöðum að njóta lífsins. Það er undarlegt sálarástand sem fylgir því að hoppa svona á milli andstæðna á einum klukkutíma, hernámsástands og sólarstrandarlífs, ef svo má að orði komast,“ segir Magnea og bætir við. „Annars hafa orðið tvær hnífsárásir í Tel Avív nýverið. Í þeirri fyrri var hermaður stunginn og í hinni síðari tíu manns í strætó núna í janúar. Í báðum tilvikum voru árásarmennirnir Palestínumenn.

Eftir stríðið á Gasa sl. sumar og endalaus átök í Jerúsalem sl. vor og að undanförnu, auk þessara tilvika í Tel Avív, hefur frekar dregið úr ferðamannastraumnum en staðurinn hefur aðdráttarafl fyrir fólk með ólíkar trúarskoðanir sem kemur til að upplifa fæðingarstað allra Abrahamstrúarbragðanna, gyðingdóms, íslams og kristni. Í Jerúsalem er Musterishæðin, helgasti staður gyðinga, auk Grátmúrsins og „fjarlæga moskan“ (Al-Aqsa-moskan) sem er þriðji helgasti staður múslima, sem laðar marga að. Musterishæðin er jafnframt einn mesti átakastaðurinn í Jerúsalem milli múslima og gyðinga. Fæðingarkirkja Krists í Betlehem hefur mikið aðdráttarafl og þar er alltaf löng röð af ferðamönnum sem vilja skoða hellinn þar sem Jesús Kristur er talinn hafa fæðst.

En finnur hún aldrei fyrir ótta á þessu svæði? „Öryggið er mikið þegar maður vinnur fyrir alþjóðafélagasamtök eða stofnanir. Ég er alltaf með farsíma á mér og fæ sms-skilaboð frá öryggisstofnun Sameinuðu þjóðanna um hvaða staði ég á að forðast. Þegar verst lætur fæ ég í kringum tuttugu slík skilaboð á dag. Skilaboðin segja mér í hvaða hverfum átök eiga sér stað eða hvar ryskingar eru á milli ísraelska hersins og Palestínumanna, mótmæli og átök. Oft eru átök við Kalandia-vegatálmann milli Ramallah og Jerúsalem. Palestínumenn hafa einungis eina leið til að fara í gegn en fólk sem starfar fyrir alþjóðasamtök og stofnanir hafa fleiri valkosti. Það er mjög gott vegakerfi í Ísrael á hernumdu svæðunum enda hluti af öllu hernámsskipulaginu fyrir utan vegatálmana að hafa opnar leiðir fyrir her og lögreglu til að geta komist hratt og örugglega á milli staða,“ greinir Magnea frá.

Heim í rólegheit

„Þess má geta að það eru um 500 þúsund landtökumenn sem búa í Austur-Jerúsalem og á Vesturbakkanum. Landtökubyggðirnar eru vanalega staðsettar uppi á hæðum fyrir ofan byggðir Palestínumanna. Það er engin tilviljun að byggðinni sé valinn staður hátt uppi, það er ákveðin herkænska og öryggisráðstöfun. Byggðirnar fela í sér ólöglega landtöku skv. áliti Alþjóðadómstólsins í Haag og margir Palestínumenn hafa misst heimili sín þegar stórtæk vinnutæki eru send til að jafna heimili þeirra við jörðu til þess að rýma fyrir landtökubyggð. Vanalega er réttlætingin sú að húsin hafi verið byggð ólöglega eða án byggingarleyfis, sem Palestínumenn þurfa að sækja um til Ísraelsstjórnar, nema á þeim svæðum sem eru undir stjórn Palestínumanna. Síðan eru reistar stórar íbúðablokkir sem líta út eins og virkisveggir. Það var því mörgum Palestínumönnum órótt í sumar þegar Hamas gerði landtökubyggðirnar í kringum Jerúsalem og Betlehem að skotmörkum sínum,“ segir Magnea.

„Rót átakanna er vissulega sú staðreynd að óréttlæti í formi ofsókna í garð gyðinga um aldir í Evrópu var leyst með því að skapa óréttlæti fyrir annan hóp fólks, Palestínumenn, sem voru ekki hafðir með í ráðum við stofnun Ísraelsríkis. Palestínumenn hafa alla tíð lotið yfirráðum annarra og eru ríkisfangslaus þjóð sem vill sitt eigið ríki og það öryggi og þau réttindi sem ríkisborgararéttindi fela í sér.“

Magnea segist ætla að vera áfram í Palestínu á meðan hún fái verkefni til að vinna. Hún kom heim um jól og áramót til að hitta uppkomin son, fjölskyldu og vini. „Það er mjög gott að komast burt frá svona átakasvæðum og njóta þess að hitta vini og vandamenn og einfaldlega fara í sund og göngutúr í Elliðaárdalnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×