Innlent

Vinnumálastofnun lokar á Húsavík: Mikil óánægja með ákvörðunina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Húsavík.
Húsavík. visir/vilhelm
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hafa sent frá sér ályktun vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að loka þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík þann 1. desember nk.

Starfsmanni Vinnumálastofnunar var sagt upp í dag en hann hefur verið í 40% starfi.

Í tilkynningu frá Framsýn kemur fram að mikil óánægja sé með boðaða lokun og munu fulltrúar Framsýnar funda með sveitarstjóra Norðurþings á morgun auk þess sem óskað verður eftir fundi með Félags- og húsnæðismálaráðherra vegna málsins.

Hér að neðan má lesa ályktun Framsýnar í heild sinni;

Um lokun Vinnumálastofnunar á Húsavík Framsýn, stéttarfélag krefst þess að Vinnumálastofnun dragi þegar í stað til baka boðaða lokun á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík frá og með 1. desember 2014. Þá vekur furðu að stofnunin skyldi ekki sjá ástæðu til að eiga samráð við stéttarfélögin og sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum um málið áður en þessi vanhugsaða ákvörðun var tekin.

Greinagerð:

Vinnumálastofnun hefur í tilkynningu til Framsýnar ákveðið að leggja niður starfsemi Vinnumálastofnunar á Húsavík. Starfsmanni sem gegnt hefur 40% starfi á vegum stofnunarinnar á Húsavík hefur verið sagt upp störfum. Áður var um fullt stöðugildi að ræða.

Þjónusta Vinnumálastofnunar er gríðarlega mikilvæg í Þingeyjarsýslum. Stofnunin heldur utan um skráð atvinnuleysi á svæðinu og er ætlað að vinna að úrræðum fyrir atvinnuleitendur í samráði við þá. Jafnframt gegnir stofnunin mikilvægu hlutverki í atvinnumálum fatlaðra auk þess að þjónusta verðandi foreldra í gegnum fæðingarorlofssjóð.

Það vekur furðu og reyndar undrun að á sama tíma og stjórnvöld hreykja sér að flutningi Fiskistofu til Akureyrar með það að markmiði að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni skuli sömu stjórnvöld vinna markvisst að því að leggja niður opinber störf á öðrum stöðum á landsbyggðinni. Þetta er skrýtin stjórnsýsla svo ekki sé meira sagt og kallar á harða gagnrýni.

Soffía Gísladóttir forstöðumaður VMST á Norðurlandi eystra átti fund með formanni Framsýnar í dag þar sem farið farið yfir ákvörðun stofnunarinnar að loka á Húsavík. Við það tækifæri kom formaður Framsýnarskoðunum félagsins á framfæri við stofnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×