Viðskipti innlent

Vinnsla fiskeldisins gæti horfið burt úr byggðinni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Uppsagnir fiskeldisfyrirtækisins Fjarðalax á fjórtán starfsmönnum á Patreksfirði og hugmyndir um að flytja vinnslu afurðanna burt af svæðinu eru mikið reiðarslag, að mati Verkalýðsfélags Vestfjarða. Forystumenn Fjarðalax og bæjarstjórn Vesturbyggðar funda á morgun um málið.

Fólkinu fjölgaði raunar um yfir sextíu manns samtals í fyrra á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, - skýrt dæmi um þann viðsnúning sem orðið hefur með uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. Tilkynning Fjarðalax fyrir páska um að fjórtán starfsmönnum hefði verið sagt upp í vinnslu félagsins á Patreksfirði var því áfall, segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar, í samtali við Stöð 2.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.Mynd/Egill Aðalsteinsson.
Verkalýðsfélag Vestfjarða segir á heimasíðu sinni að mikil óvissa ríki um áframhald vinnslunnar á Patreksfirði og uppsagnirnar séu mikið reiðarslag, þvert ofan í þá miklu uppbyggingu í fiskeldi sem verið hafi á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Ráðamenn Fjarðalax vildu ekki tjá sig í dag við fréttastofuna um hvaða áform þeir hefðu en í tilkynningu félagsins í lok marsmánaðar sagði að uppsagnirnar væru vegna tímabundinnar óvissu um staðsetningu nýs vinnsluhúss, sem nauðsynlegt væri að reisa vegna aukinna umsvifa í fiskeldinu. Það væri skoðun forsvarsmanna Fjarðalax að kostnaðarhagræði yrði best náð með því að aðilar sameinuðust um slátrun og vinnslu.  Eftir því yrði leitað af hálfu Fjarðalax í tengslum við flutning á vinnslu félagsins, sagði í tilkynningu Fjarðalax.

Úr fiskvinnslu Fjarðalax á Patreksfirði. Starfsmönnum hefur nú verið sagt upp störfum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Héraðsfréttamiðilinn Bæjarins besta á Ísafirði hefur nú upplýst að Fjarðalax og Dýrfiskur eigi í viðræðum um að sameiginleg vinnsla verði á Flateyri, og er það haft eftir Sigurði Péturssyni, framkvæmdastjóra Dýrfisks. Bæjarstjórn Vesturbyggðar hyggst hins vegar freista þess að vinnslan verði áfram þar og segir Ásthildur bæjarstjóri að fundað verði á Patreksfirði á morgun með forystumönnum Fjarðalax um málið.


Tengdar fréttir

Fiskeldismenn kalla eftir vegabótum á Vestfjörðum

Milljarðauppbygging fiskeldis á Vestfjörðum kallar á stórfelldar vegabætur strax, segir framkvæmdastjóri Arnarlax. Vegirnir á Vestfjörðum séu einfaldlega ónýtir. Norskt fiskeldis- og matvinnslufyrirtæki er að flytja alla starfsemi sína frá Norður-Noregi til sunnaverðra Vestfjarða og hyggst byggja þar seiðaeldisstöð, laxasláturhús og fiskréttaverksmiðju í nafni Arnarlax. Náttúrulegar aðstæður í Arnarfirði þykja ákjósanlegar en annað gildir um innviði eins og vegi sem ráðamenn félagsins segja að verði að bæta. "Þetta er mjög einfalt mál. Vegirnir eru ónýtir.

Laxeldi á Vestfjörðum eins og ígildi álvers

Uppbygging laxeldis stefnir í að hafa sambærileg og jafnvel meiri áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum og stóriðjuframkvæmdirnar höfðu fyrir Austurland, segir bæjarstjóri Vesturbyggðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×