Innlent

Vinna að frumvarpi til að bæta réttarstöðu þolenda í nauðgunarmálum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Markmið frumvarpsins verði að bæta úr þessu og styrkja stöðu brotaþola.
Markmið frumvarpsins verði að bæta úr þessu og styrkja stöðu brotaþola. Getty
Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vinnur að undirbúningi frumvarps til breytinga á lögum um meðferð sakamála sem miða að því að bæta réttarstöðu brotaþola í nauðgunarmálum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum. Þar segir að ábendingar hafi komið um þörf fyrir úrbætur á þessum vettvangi, m.a. í nýlegri greinargerð Hildar Fjólu Antonsdóttur, Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum.

„Brotaþolar í nauðgunarmálum hafa mikilvægra og réttmætra hagsmuna að gæta, en þar sem nauðgunarmál eru rannsökuð og sótt af hinu opinbera eiga brotaþolar ekki aðild að þeim. Brotaþolar hafa því takmarkaða möguleika á að koma sínum sjónarmiðum að og fá ekki fyllstu upplýsingar um gang máls í réttarkerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Markmið frumvarpsins verði að bæta úr þessu og styrkja stöðu brotaþola með því að auka aðgang hans að upplýsingum á öllum stigum máls, veita rétt til að hlýða á málflutning fyrir dómi, gefa yfirlýsingu um málavexti, koma athugasemdum á framfæri og gefa lokayfirlýsingu fyrir dómi.

„Sambærilegar breytingar hafa verið gerðar á sakamálalöggjöf á Norðurlöndum á undanförnum árum í því skyni að treysta stöðu brotaþola í nauðgunarmálum. Tímabært er að uppfæra íslenska löggjöf í þessum mikilvæga málaflokki og mun VG leggja frumvarp sitt fram nú í vor og vonast eftir góðum undirtektum við það á Alþingi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×