Innlent

Vináttan við Íslendinga skipti mestu

Una Sighvatsdóttir skrifar
Zahra Mesbah er afgönsk en kom hingað sem flóttamaður frá Íran árið 2012. Hún flutti erindi í dag á málþingi Siðmenntar þar sem fjallað var um hvað gera mætti betur fyrir flóttamenn og hælisleitendur. Zahra segir að í upphafi hafi verið afar erfitt að koma til lands þar sem bæði menning og tungumál voru gjörólík því sem hún átti að þekkja.

Með Zöhru í för voru systir hennar og móðir, auk tveggja aðra afganskra fjölskylda. Hún segist hafa verið mjög áhyggjufull því þau vissu ekkert um Ísland. Fyrstu vikuna upplifðu þær sig einar í heiminum.

Hélt það hefðu verið mistök að koma

„Eftir fjóra daga var ég bara farin að gráta mjög mikið, vegna þess að ég helt að þetta væru mistök. Ég skili allt eftir, fjölskyldu mína og vini og landið sem ég fæddist í og ólst upp. Ég hélt að ég hefði misst allt."

Hún segir það hafa breytt öllu að fá stuðning og vináttu frá sjálfboðaliðum Rauða krossins. „Það sem hjálpaði okkur mikið var að þau voru aldrei að segja: „Nei þú getur ekki gert þetta, það er svo erfitt fyrir þig“. Þau sögðu alltaf: „Já þú getur, já þú getur, já þér er velkomið að reyna“. Þetta var mjög mikilvægt fyrir mig til að halda áfram hér, og bara finna mig sjálfa," segir Zahra.

Hælisleitendur í verri stöðu

Stuðningur við kvótaflóttamenn sem hingað koma í boði stjórnvalda er mun betri en við þá sem koma á eigin vegum og fá hæli. Zahra telur að það myndi stuðla að betri aðlögun ef hælisleitendur fái sambærilega félagslega aðstoð. Þeim mæðgum var úthlutað þremur stuðningsfjölskyldum við komuna til Íslands. Hún segir að það myndi skipta miklu fyrir þá sem hér fá hæli að komast í tengsl við þó ekki væri nema eina stuðningsfjölskyldu.

„Sem betur fer komumst við beint til Íslands og beint að hjá Rauða krossinum hér og þetta var auðvelt fyrir okkur. En fyrir hælisleitendur sem koma langt að og hafa upplifað morð og dauða á leiðinni. Það er mjög erfitt fyrir þau. Við gætum hjálpað þeim meir ef við setjum okkur í þeirra spor, þá getum við skilið þau betur. Við getum kannski hjálpað þeim betur að vera hér og finna sig sjálf, að eignast lífið sem þau vilja," segir Zahra.

Ánægð með tækifærin á Íslandi

Sjálf er hún hamingjusöm með þau tækifæri sem henni hefur boðist á Íslandi, en hún stundar nú háskólanám í ensku og íslensku sem öðru máli.

„Draumurinn minn var alltaf að vera læknir. Í löndum eins og Afganistan og Íran og í Sýrlandi, fólkið þarf einhverja sem hjálpa þeim. Ég var í tannlæknisfræði síðustu önn en komst ekki inn í klásusinn. Svo ég bara hugsaði að kannski er betra að kunna meiri íslensku og læra betur því þetta var mjög erfitt. Og svo reyna aftur. Ég ætla að reyna aftur og aftur og aftur og aldrei gefast upp. Það er markmiðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×