Innlent

Vímuefnaskýrsla óhreyfð í ráðuneytinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aðstoðarmaður Óttars Proppe segir að heilbrigðisstefna flokksins byggi á hugmyndum um skaðaminnkandi aðgerðir í fíkniefnamálum.
Aðstoðarmaður Óttars Proppe segir að heilbrigðisstefna flokksins byggi á hugmyndum um skaðaminnkandi aðgerðir í fíkniefnamálum. vísir/vilhelm
Skýrsla starfshóps um leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu hefur legið á ís frá því að Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, kynnti hana í ágúst.

„Það er markmið okkar að ráðast í vinnu út frá þessari skýrslu enda er efni hennar í samræmi við heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar,“ segir Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðarmaður Óttars Proppé heilbrigðisráðherra. „Það hefur þó ekki mikið gerst eftir að skýrslan var kynnt á Alþingi í ágúst síðastliðnum, þar sem haustþingið fór í að afgreiða örfá forgangsverkefni sem þurfti að ljúka fyrir áramót og í haust var svo kosið,“ bætir hann við.

Í heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar kemur fram að flokkurinn telur að gera þurfi sérstakar ráðstafanir innan heilbrigðiskerfisins til þess að koma til móts við þarfir jaðarsettra hópa. „Sýnt þykir að skaðaminnkandi þjónusta sem kemur til móts við jaðarsetta einstaklinga hefur mikið forvarnargildi varðandi ýmsa sjúkdóma og bætir líðan og heilsu þeirra sem þjónustunnar njóta. Við viljum með þessu draga úr álagi á bráðadeildir,“ segir í stefnunni.

Það var Borgar Þór Einarsson lögfræðingur sem fór fyrir starfshópi heilbrigðisráðherra. Í skýrslu hópsins eru meðal annars tillögur um afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna, að smávægileg fíkniefnabrot fari ekki í sakaskrá, auk fleiri tillagna um skaða­minnkandi aðgerðir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×