Skoðun

Viltu verða leikskólakennari?

Anna Magnea Hreinsdóttir skrifar
Nú fer að líða að þeim tíma ársins sem stór hópur fólks í framhaldsskólanámi tekur ákvörðun um hvaða nám það velur sér að stunda næstu árin. Talið er að fólk velji sér starfsvettvang út frá þremur atriðum, í fyrsta lagi náminu, í öðru lagi áhuga og í þriðja lagi tekjum.

Á Íslandi er áætlað að þörf sé fyrir um 1.300 leikskólakennara á næstu árum og því eru möguleikar á framtíðarstarfi miklir, bæði sem almennur kennari en einnig sem deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólastjóri.

Hvernig er námið?

Leikskólakennaranám er stundað á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri, bæði í staðnámi og í fjarnámi og eru nokkrar námsleiðir í boði. Til að fá leyfisbréf sem leikskólakennari þarf viðkomandi að hafa lokið fimm ára meistaranámi.

Í meistaranámi sínu hafa leikskólakennaranemar tækifæri til að sérhæfa sig í t.d. foreldrasamstarfi, útikennslu, margbreytilegum barnahópi, læsi, hreyfingu svo eitthvað sé nefnt og þannig haft áhrif á nám og stefnumótun á því sviði í leikskólum landsins.

Nokkrir leikskólakennarar hafa einnig lokið doktorsnámi og eru rannsóknir á menntun ungra barna vaxandi hér á landi með forgöngu Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng).

Í Garðabæ er veittur styrkur til þeirra starfsmanna sem stunda nám meðfram starfi í leikskóla í Garðabæ í formi launa í staðlotum og vettvangsnámi, en einnig með afslætti af vinnuskyldu þegar í framhaldsnám er komið.

Er starfið áhugavert?

Ekkert er mikilvægara og verðmætara en börnin okkar, velferð þeirra, umönnun og þroski. Því eru leikskólakennarar að sinna helstu verðmætum þjóðarinnar á hverjum degi.

Að morgni taka leikskólakennarar á móti fjölbreyttum barnahópi og fylgja þeim í gegnum daginn. Betri félagsskap í vinnunni er vart hægt að hugsa sér. Dagurinn einkennist af söng og samræðum, hreyfingu og útiveru, hvíld og slökun og miklum leik þar sem börnin læra allt milli himins og jarðar. Má þar helst nefna samskipti þar sem orðaforði barnanna er efldur og önnur málörvun fer fram. Einnig er mikið lagt upp úr næringarríkum máltíðum og daglegri útiveru sem leikskólakennarar taka fullan þátt í. Börn á leikskólum læra um sjálfbæra lífshætti, stjörnur og náttúruna, fjallað er um lífsgildin, vináttu og umburðarlyndi og börnin hvött til skapandi hugsunar.

Lýðræði og mannréttindi eru kennd á hverjum degi í litlu sem stóru og börnin hvött til að segja hvað þeim finnst og að hafa áhrif á leikskólastarfið í samstarfi við leikskólakennarana. Áhugavert, ekki satt?

En hverjar eru tekjurnar?

Mikið hefur áunnist í samningum um laun leikskólakennara á síðustu árum. Tekjurnar eru að mörgu leyti sambærilegar þeim stéttum sem hafa sambærilega menntun. Má þar nefna kennara á öðrum skólastigum sem eru félagar í KÍ og félagar í BHM. Einnig fylgja ýmis fríðindi aðild að KÍ, svo sem aðgangur að vísindasjóði til sí- og endurmenntunar, sjúkrasjóði og orlofssjóði með góðu úrvali orlofshúsa.

Ég mæli eindregið með starfinu og hvet þá sem eru að velta fyrir sér næstu skrefum að loknu framhaldsskólanámi að leita sér upplýsinga um starf leikskólakennara á vefsíðunni framtidarstarfid.is.




Skoðun

Sjá meira


×