Enski boltinn

Villas-Boas: Chelsea kom illa fram við mig

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Villas-Boas stýrir Zenit í Rússlandi
Villas-Boas stýrir Zenit í Rússlandi vísir/getty
Andre Villas-Boas fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea og Tottenham er ekki sáttur við framkomu leikmanna Chelsea þegar hann stýrði liðinu tímabilið 2011-2012.

Villas-Boas tók við Chelsea í júní 2011 og var rekinn í mars 2012 en hann vann 19 leiki af 40 sem stjóri félagsins.

„Ég gerði fullt af mistökum á Englandi og kannski var ég full ákveðinn við fjölmiðla,“ sagði Villa-Boas í viðtali við Expresso.

„Ég vildi verja leikmenn mína og félagið og undir lokin þegar ég horfði í kringum mig sá ég að ég var einn. Það var komið illa fram við mig allan tímann.“

Villas-Boas segir leikmenn Chelsea hafa svikið sig.

„Já og það jafnvel opinberlega. Ashley Cole viðurkenndi það og þó það sé gott að hann hafi viðurkennt þetta núna þá var það gjörsamlega óásættanlegt á sínum tíma,“ sagði Portúgalinn.

Villas-Boas segist einnig hafa varað Daniel Levy stjórnarformann Tottenham við því að Tim Sherwood hafði slæm áhrif á White Hart Lane þegar Villas-Boas stýrði Tottenham en Sherwood tók við liðinu þegar Villas-Boas var rekinn.

„Tim var ekki hluti af þjálfarateymi mínu. Ég varaði stjórnarformanninn við því að hann væri hættulegur félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×