Innlent

Vill upplýsingar um hvort félag Bjarna hafi verið í gögnum skattrannsóknarstjóra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður VG hefur lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður VG hefur lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra. Vísir/GVA
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður Vinstri Grænna, vill fá að vita hvort að eignarhald Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Falson & Co, aflandsfélagi sem kom fyrir í Panama-skjölunum, hafi haft áhrif á afstöðu hans til kaupa á gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum sem íslenskum yfirvöldum voru boðin til kaups árið 2014.

Hefur Rósa Björk lagt fram fyrirspurn á Alþingi í nokkrum liðum til fjármálaráðherra þar sem óskað er eftir svörum við spurningum sem tengjast aflandsfélögum og þeim gögnum sem íslenskum skattayfirvöldum bauðst að kaupa.

Vill Rósa Björk að fjármálaráðherra svari því hvort að sú staðreynd að ráðherra hafi sjálfur átt aflandsfélag um tíma hafi haft áhrif á afstöðu hans til kaupa á gögnunum og þá hvort að í þeim gögnum sem keypt voru hafi mátt finna upplýsingar um aflandsfélög eða félög sem voru í eigu ráðherra eða aðila nátengdum ráðherra.

Í júní á síðasta ári gekk skattrannsóknarstjóri frá kaupum á gögnunum sem um ræðir en talsverðan tíma tók að ganga frá kaupunum. Setti fjármálaráðherra ákveðin skilyrði sem uppfylla þurfti og taldi skattrannsóknarstjóri sig ekki geta uppfyllt þau. Ríkisstjórnin samþykkti þó að lokum fjárveitingu til skattrannsóknarstjóra svo ganga mætti frá kaupunum.

Sjá má fyrirspurn Rósu Björk í heild sinni hér fyrir neðan.

1. Hversu langur tími leið frá því að ráðuneytinu varð kunnugt um gögn sem vörðuðu aflandsfélög og skattaskjól og þar til þau voru keypt? Hvað skýrir þann drátt sem varð á málinu eftir að skattrannsóknarstjóri óskaði eftir heimild til kaupanna í október 2014?

2. Voru í gögnunum upplýsingar um aflandsfélag eða félög sem:

a. voru eða höfðu verið í eigu ráðherra sjálfs,

b. voru eða höfðu verið í eigu aðila sem nátengdir voru ráðherra að ætterni eða mægðum, eða voru við­skipta­félagar hans,

c. voru í eigu annarra ráðherra? 

3. Hvernig rökstyður ráðherra það verklag að segja skattrannsóknarstjóra að leggja sjálfstætt mat á gögnin en setja jafnframt skilyrði fyrir samningum við seljanda þeirra? 

4. Hafa upplýsingar úr gögnunum orðið tilefni til viðbragða af hálfu ráðuneytisins og þá hvaða viðbragða? 

5. Hvaða fundi skattrannsóknarstjóra og starfsfólks ráðuneytisins um kaup á gögnunum sat ráðherra? Óskað er upplýsinga um fjölda slíkra funda, dagsetningu þeirra og fundarefni. 

6. Hvenær varð ráðherra ljóst hversu mörg íslensk nöfn væri að finna í gögnunum og hafði það áhrif á afstöðu hans til kaupanna? 

7. Hafði sú staðreynd að ráðherra átti sjálfur aflandsfélag um tíma áhrif á afstöðu hans til kaupa á gögnunum?


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×