Innlent

Vill uppboð byggða- og strandveiðikvóta

Sveinn Arnarsson skrifar
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

„Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur marg­sannað sig. Því ættum við að fara varlega í breytingar á kerfinu. Að mínu mati kæmi ekki til greina að bjóða upp aflaheimildir á einu bretti,“ segir Páll Valur.

Hann segir byggðakvóta og strandveiðikvóta ekki hjálpa byggðum landsins. „Það kemur til greina að bjóða upp þennan kvóta. Með byggðakvóta eru menn að munstra sig austur á firði frá öðrum stöðum á landinu og svo er fiskurinn fluttur á bílum suður.

Einnig með strandveiðina, þá getur ekki verið arðbært að mörg hundruð báta sæki þann litla afla sem til skiptanna er í ólympískum veiðum. Menn eru að fá mjög lítið út úr þessum veiðum. Við ættum að geta boðið upp kvótann og skilað þeim fjárhæðum til byggðanna aftur. Þá gætum við nýtt mun betur auðlindina til hagsbóta fyrir landsbyggðina.“ segir Páll Valur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×