Innlent

Vill taka aftur yfir heilsugæsluna

Sveinn Arnarson skrifar
Kristján Þór Júlíusson telur ástand heilsugæslumála á Akureyri óviðunandi.Fréttablaðið/Kristján
Kristján Þór Júlíusson telur ástand heilsugæslumála á Akureyri óviðunandi.Fréttablaðið/Kristján
Vilji er til þess hjá heilbrigðisráðherra að taka aftur yfir rekstur heilsugæslunnar á Akureyri ef marka má bréf ráðuneytisins til Akureyrarkaupstaðar.

Velferðarráðuneytið hefur, fyrir hönd heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar, sent Akureyrarkaupstað bréf þar sem óskað er eftir viðræðum um að flytja rekstur heilsugæslunnar í bænum aftur til ríkisins. Akureyrarbær hefur í nokkurn tíma verið tilraunasveitarfélag um að reka heilsugæslu þar í bæ. Nú er svo komið að fé vantar inn í samninginn til þess að reka heilsugæsluna og hefur hún verið rekin með halla síðustu misseri. Einnig hafa biðlistar eftir heimilislæknum lengst.

Bæjarráð svaraði bréfi ráðuneytisins á síðasta fundi og skipaði tvo fulltrúa í samráðshóp. Einnig óskaði bæjarráð eftir fundi við ráðherra vegna málsins.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, sagði í samtali við Fréttablaðið það vera skýran vilja bæjarins að halda áfram rekstri heilsugæslunnar. Þó væri það þannig að það vantaði fé inn í reksturinn.

Guðmundur segir að ekkert samráð hafi verið haft við bæjaryfirvöld áður en þess var óskað að skipa fulltrúa í hópinn sem ætlað er að flytja starfsemi heilsugæslunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×