Innlent

Vill stytta biðtíma erlendra ríkisborgara eftir kosningarrétti

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ríkisborgarar Evrópusambandslanda sem eru búsettir hér á landi fá strax atkvæðisrétt í sveitarstjórnarkosningum og þurfa ekki lengur að bíða í allt að fimm ár ef frumvarp sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi verður samþykkt. Flutningsmaður segir þetta mikilvægt skref til að virkja erlenda ríkisborgara til þátttöku í íslensku samfélagi.

Pawel Bartoszek er flutningsmaður frumvarpsins ásamt þremur öðrum þingmönnum úr Viðreisn.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Norrænir ríkisborgarar og fólk frá ESB löndum öðlist strax rétt til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum þegar það flytur hingað til lands.

Frumvarpið miðar við þær reglur sem eru í gildi í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Þar fá Norrænir ríkisborgarar og fólk frá ESB löndum strax kosningarrétt en fólk frá öðrum löndum þarf að bíða í þrjú ár. Í Noregi fá Norrænir ríkisborgarar strax kosningarrétt en aðrir þurfa að bíða í þrjú ár.

Rúmlega 30 þúsund erlendir ríkisborgarar voru búsettir hér á landi undir lok síðasta árs eða um 8 prósent af heildarmannfjölda.

„Við höfum búið við þá gæfu hér á Íslandi að við höfum haft mjög virka stjórnmálaþátttöku almennings. Við eigum ekki að líta á það sem hættu ef að erlendir ríkisborgarar láta meira að sér kveða í íslensku samfélagi. Við eigum að líta á það sem hættu ef þeir gera það ekki,“ segir Pawel.

Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk í gær og hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd það nú til umfjöllunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×