Innlent

Vill sjá sameiginlega stefnu í húsnæðismálum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu móti sameiginlega stefnu í húsnæðimálum til að taka á vanda leigjenda og ungra fasteignakaupenda.

Einkarekin fasteignafélög hafa verið umsvifamikil á húsnæðismarkaðinum á síðastliðnum árum. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstóri Kópavogs gagnrýndi þessi fyrirtæki í þættinum Víglínan á Stöð 2 á laugardag og sagði að þau hefðu í sumum tilfellum skapað ójafnvægi á húsnæðismarkaði og sprengt upp leigu- og íbúðaverð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir hins vegar erfitt að skella skuldinni alfarið á þessi félög.

„Ég held að það sé ekki eitthvað eitt sem er að leiða til verðhækkana. Við tökum eftir því að bankarnir eru líka að spá miklum verðhækkunum og ýta svolítið undir þær með því. En það sem borgin er að gera er að leggja sérstaka áherslu á samstarf við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni vegna þess að við höfum trú á því að tilkoma þeirra og öflug uppbygging á þeirra vegum geti temprað markaðinn, bæði leigumarkaðinn en húsnæðismarkaðinn líka í heild sinni,“ segir Dagur.

Hann telur mikilvægt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu móti sameiginlega stefnu í málinu.

„Ég held að við höfum lært það í hruninu að sveitarfélögin voru alls ekki að vinna samstillt. Núna finnum við fyrir því að við erum að fjölga félagslegum íbúðum, við erum að fjölga stúdentaíbúðum, við erum að fjölga íbúðum fyrir eldri borgara, við erum að vinna með ASÍ og BSRB að koma upp langtíma leigufélögum sem að verði stór hérna en myndum vilja sjá aðra gera þetta á svipuðum skala þá myndum við ná miklu hraðar utan um vandamálið,“ segir Dagur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×