Innlent

Vill óundirbúnar fyrirspurnir í borgarstjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mun leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að taka upp óundirbúnar fyrirspurnir í borgarstjórn, en óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra eru fastur liður í dagskrá Alþingis.

„Hugsunin á bak við tillöguna er sú að minnihlutinn í borginni, eins og alþingismenn, geti ræktað eftirlitshlutverk sitt gagnvart framkvæmdavaldinu,“ segir Hildur í samtali við Vísi.

Hún segir verklag í kringum borgarstjórnarfundi mjög stíft. Til að mynda þurfa allar tillögur sem leggja á fram á fundi á þriðjudegi að liggja fyrir á föstudagsmorgni. Það sé því ekki svigrúm til að ræða málefni dagsins á fundunum þar sem kerfið komi í veg fyrir það.

„Hugmyndin með borgarstjórnarfundi er að þetta sé opin málstofa fyrir almenning og fjölmiðla. Það gefur því auga leið að í svona hröðu samfélagi eins og við búum í núna, þar sem samfélagsmiðlarnir grípa hlutina til dæmis fljótt, þá er allt borgarkerfið orðið svo eftir á.“

Hildur veit ekki hvernig meirihlutinn mun taka í tillögu hennar.

„Ég vonast þó til þess að þau taki því fagnandi að geta eflt samtalið við almenning án allra þessara kerfislægu girðinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×