Erlent

Vill lögleiða fóstureyðingar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Michelle Bachelet, forseti Chile.
Michelle Bachelet, forseti Chile. Vísir/Getty
Michelle Bachelet, forseti Chile, hefur lagt fram frumvarp á þingi um lögleiðingu fóstureyðinga. Chile er eitt af fáum ríkjum í heiminum þar sem fóstureyðingar eru með öllu bannaðar.

Konur sem fara í fóstureyðingu, og þeir sem framkvæma aðgerðina, geta því átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm ef upp um glæpinn kemst.

Bachelet tilkynnti um lagafrumvarpið í sjónvarpsávarpi. Hún sagði að bannið ógnaði lífi þúsunda kvenna í Chile ár hvert. Þá væri augljóst að bann við fóstureyðingum kæmi ekki í veg fyrir að þær væru framkvæmdar í landinu.

Búast má við því að lagafrumvarpið mætti mikilli andstöðu frá kaþólsku kirkjunni og frá stjórnarandstöðunni á þingi, en kannanir sýna að meirihluti Chile-búa er hlynntur því að fóstureyðingar verði leyfðar í einhverjum tilfellum, til dæmis ef líf móðurinnar er í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×