Lífið

Vill líkjast Will Ferrell í úrslitaþættinum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Steinþór Helgi vill líkjast Mugatu sem stal senunni í kvikmyndinni Zoolander.
Steinþór Helgi vill líkjast Mugatu sem stal senunni í kvikmyndinni Zoolander. Mynd/Daníel
Steinþór Helgi Arnsteinsson, annar af spurningahöfundum og dómurum í Gettu betur stal senunni á Twitter í kvöld, þegar hann sagðist ætla aflita hár sitt ef þrjú hundruð manns myndi endurtísta tísti hans. Um er að ræða tíst sem er svohljóðandi: „300 RT og ég aflita á mér hárið fyrir úrslitin í #gettubetur.“

Ekki leið á löngu þar til að yfir þrjú hundruð manns endurtístuðu tístinu.

„Já, það stendur hvert einasta orð,“ segir Steinþór Helgi spurður út í hvort um grín hafi verið að ræða. Hann aflitaði hárið sitt síðast þegar hann var í tíunda bekk og er fullur tilhlökkunar.

„Það eina sem ég vona er að krullurnar detti ekki dauðar niður. Ég vil reyna að halda krullunum, ég fer fyrst að gráta ef þær fara,“bætir Steinþór Helgi við.

Hann hefur nú þegar fundið sér fyrirmynd sem hann vill gjarnan líkjast í úrslitaþættinum í Gettu betur, en það er enginn annar en tískumógúllinn og illmennið ógurlega, Mugatu, sem Will Ferrell lék í kvikmyndinni Zoolander.

Steinþór Helgi segir að Rúv hafi ekki sett neina pressu á sig um að breyta útliti sínu fyrir úrslitaþáttinn, heldur sé þetta grín eingöngu komið frá honum sjálfum.  „Þetta var bara eitthvað spontant grín hjá mér. Það er ekkert stress,“ segir Steinþór Helgi, fullviss um að hann muni líta glæsilega út eftir aflitunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×