Innlent

Vill heimild til að hlera opinbera starfsmenn sem grunaðir eru um mútuþægni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. vísir/pjetur
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari telur þörf á að heimild fáist til þess að hlera opinbera starfsmenn sem grunaðir eru um mútuþægni í starfi. Hún vill að ákvæði þess efnis verði bætt inn í lög um skilyrði fyrir beitingu símahlustunar.

Þetta kemur fram í umsögn Sigríðar við frumvarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra um  breytingu á lögum um meðferð sakamála og skilyrði fyrir beitingu símahlustunar, en RÚV greindi fyrst frá. Sigríður segist vilja að ákvæði um mútuþægni opinberra starfsmanna verði bætt inn í upptalningu lagaákvæða í frumvarpinu.

Sigríður vísar til tilmæla vinnuhóps OECD um erlend mútubrot, en innanríkisráðuneytið í samvinnu við utanríkisráðuneytið útbjó upplýsingablað um erlend mútubrot í kjölfar tilmæla hópsins.

Í frumvarpinu segir að þau skilyrði verði að vera fyrir hendi svo að gripið verði til símhlustana að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og að almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að beita símhlustunum ef rannsókn beinist til að mynda að skipulagðri brotastarfsemi, frelsissviptingu, brot gegn nálgunarbanni, vændisstarfsemi og fleiru.

Sigríður segir fyrirkomulagið í fruvmarpinu, að skipa lögmann til að gæta hagsmuna þess sem hleraður er fyrir dómi, geta haft í för með sér að málsmeðferðin verði töluvert tímafrekari en nú er, enda verði lögmaðurinn að geta sinnt sínu verkefni á fullægjandi hátt. Þá segir hún að ætla megi að það verði erfitt fyrir dómarann að ganga úr skugga um það með skjótum hætti að lögmaður hafi engar tengingar við þann sem hleraður er, sem geri hann vanhæfan til starfans. Ekki sé hægt að líta fram hjá fámenni íslensku þjóðarinnar.

Sigríður segir jafnframt að fyrirkomulaginu fylgi nokkur kostnaður í réttarvörslukerfinu, sem í dag líði fyrir fjárskort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×