Erlent

Vill fara í hart gegn öfgafólki

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands og leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins.
Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands og leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins. Nordicphotos/AFP
Sigmar Gabriel, sem er aðstoðarkanslari Þýskalands og leiðtogi þýska Sósíaldemókrataflokksins, vill fara í „menningarstríð“ við íslamista og hryðjuverkamenn.

Banna eigi moskur öfgamanna og fara þurfi í hart gegn haturspredikurum.

„Í þessum efnum er ég fylgjandi því að umburðarlyndið sé ekkert,“ sagði hann í viðtali við blaðamenn þýska fréttatímaritsins Der Spiegel.

„Það þarf að banna moskur salafista, leysa upp söfnuðina og vísa predikurunum úr landi, og það eins fljótt og hægt er.“

Þetta eru viðbrögð hans við árásinni á jólamarkað í Berlín stuttu fyrir jól, þar sem stórri vöruflutningabifreið var ekið inn í mannfjöldann með þeim afleiðingum að tólf manns létu lífið og tugir slösuðust alvarlega.

„Ef við ætlum að taka baráttuna gegn íslamisma og hryðjuverkum alvarlega, þá verður það líka að verða menningarleg barátta,“ sagði Gabriel. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×