Innlent

Vill fagráð sem skoðar meint afbrot lögreglumanna

Lögreglumenn í þjálfun.
Lögreglumenn í þjálfun.
Lögreglumaðurinn G. Jökull Gíslason vill að það verði skoðað að setja á laggirnar sérstaka fagnefnd sem meti kvartanir gegn lögreglumönnum áður en þeir verði ákærðir.

Hann skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um ákærur gegn varðstjóra lögreglunnar sem er sakaður um að hafa ekið ógætilega þegar hann ók á ungan mann, sem var á flótta undan lögreglunni, en varð svo að lokum fyrir bíl varðstjórans og fótbrotnaði í kjölfarið. Varðstjórinn neitar sök.

G. Jökull skrifar:

„Erlendis þekkist það víða að fagnefndir meti slík atvik út frá eðli lögreglustarfsins áður en ákvörðun um ákæru er gefin út. Hér á landi fá slík mál enga slíka faglega umfjöllun heldur er það sami aðili sem rannsakar meint brot og gefur út ákæru, en það á ekki við um nein önnur brot. Þá er það orðið afar áhættusamt að vinna sem lögreglumaður þegar lögreglumenn eiga yfir höfði sér háar bótakröfur frá einstaklingum sem ættu í raun betur heima hjá ríki á grundvelli húsbóndaábyrgðar".

Hann segist vilja vekja lesendur til umhugsunar um það hvernig lögreglumenn þeir vilja hafa hér á landi.

„Viljum við lögreglumenn sem vinna óhræddir af bestu samvisku við það að sporna við afbrotum eða lögreglumenn sem vilja frekar heima sitja vegna ótta við að hver einasta misfella verði kærð?" spyr G. Jökull.

Hann skrifar svo að lokum: Í því máli sem nú er kært fyrir hefði það verið hægur leikur fyrir lögreglumanninn að missa af ökuníðingnum og koma sér þannig frá áhættu um hugsanlegar afleiðingar. Þess í stað væri miklu einfaldara að kæra aðeins þá sem eru löghlýðnari og stoppa af sjálfsdáðum. Eða bara gera sem allra minnst. Eru það skilaboðin sem við viljum senda til lögreglumanna?"

Hægt er að lesa grein G. Jökuls hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Hvernig á lögreglumaður að vinna vinnu sína?

Í vikunni var þingfest ákæra á hendur lögreglumanni fyrir meint brot í starfi. Hið meinta brot er að hafa unnið vinnu sína af kostgæfni. Það hafði afleiðingar í för með sér að ungur maður fótbrotnaði eða réttara sagt ungur ökuníðingur sem var að reyna að stinga af frá umferðarlagabroti og hlýddi engum stöðvunarmerkjum og gerði sitt ítrasta til að flýja frá lögreglu. Í eftirförinni fótbrotnaði hann þegar hann reyndi að hlaupa frá bíl sínum eftir að hafa lokast af í botngötu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×