Innlent

Vill ekki nefna dæmi um aðra leka

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Forsætisráðherra segir að  fjölmörg dæmi um leka á persónuupplýsingum um einstaklinga úr stjórnsýslunni sé að finna í fréttum undanfarinna ára. Hann vill þó ekki nefna sérstök dæmi slíkt.

Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag sagði Sigmundur Davíð að það væri óvenjulegt hversu stórt lekamálið í raun varð af þeim sökum að lekar um persónulega hagi fólks séu í raun mjög algengir í íslenskri stjórnsýslu. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar urðu forviða á ummælunum og í hádegisfréttum Bylgjunnar nú fyrir helgi sagði Steingrímur J Sigfússon þingmaður Vinstri grænna þessa fullyrðingu forsætisráðherra fráleita, og kallaði eftir dæmum.

Sigmundur Davíð sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann myndi ekki vilja nefna dæmi máli sínu til stuðnings. Slíkt megi auðveldlega finna sé leitað í fréttum undanfarinna ára. 

„Það hafa verið mörg mál og sum þeirra beinlínis verið kærð til lögreglu eða tekin fyrir hjá dómstólum. Það er ekki erfitt að finna útúr því. Ég held að það sé óþarfi að ég leggist í greiningarvinnu fyrir fjölmiðla sem að þekkja þessi mál hvað best. Ef að ég færi að taka ákveðin tilvik út úr þá færu menn kannski að lesa eitthvað í það, að ég væri að nefna akkúrat þau mál,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×