Lífið

Vill aðstoða konur að upplifa góða fæðingu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Kristín, ásamt systur sinni Áslaugu, en þær eiga saman skartgripafyrirtækið Twin Within
Kristín, ásamt systur sinni Áslaugu, en þær eiga saman skartgripafyrirtækið Twin Within Vísir
„Ég hef haft áhuga á þessum fræðum lengi, þar sem móðir og barn eru í forgangi í fæðingunni,“ segir Kristín Maríella Friðjónsdóttir, hönnuður og eigandi skartgripamerkisins Twin Within – Creative Jewelry og doula. Hún lét drauminn rætast og fór á DONA International Doulu-námskeið í Singapúr, þar sem hún býr ásamt manninum sínum og ellefu mánaða dóttur.

„Eftir fæðingu dóttur minnar var ég svo hugfangin, ég átti yndislega náttúrulega fæðingu í vatni og fékk löngun til þess að fræða og leggja mitt af mörkum svo að konur fái sem mest út úr fæðingunni sinni og upplifi á eins góðan hátt og mögulegt er,“ segir Kristín. Á öðrum degi fengu þær sem sóttu námskeiðið að vera viðstaddar heimafæðingu í gegnum kennarann þeirra, en viðskiptavinur hennar fór af stað í fæðingu.

„Þetta var alveg magnað. Hún var búin að segja okkur að það væri næstum útilokað, þar sem heimafæðingar eru sjaldgæfar í Singapúr,“ segir Kristín. Hún segir upplifunina hafa verið ómetanlega og að fæðingin hafi gengið eins og í sögu. „Ofan á allt þá fæddist barnið í belgnum, sem er enn sjaldgæfara. Þetta var bara dásamlegt. Við stóðum þarna fjórar úti í horni, fylgdumst með og grétum.“

Kristín segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að þeim konum, sem hafa stuðning annarra kvenna í fæðingu, líði betur og fæðingarupplifunin sé betri. „Þessar steríótýpísku hugmyndir um að fæðingar séu hrikalega sársaukafullar og hræðilegar eru skilaboð sem maður fær ómeðvitað úr samfélaginu. Mér finnst sorglegt ef konur sem kvíða fæðingunni gefa sér ekki tíma til að undirbúa sig eða átta sig ekki á hvaða aðstoð þær geta fengið. Fyrir mér þarf að eyða þeim hugsunarhætti að það þurfi að bjarga börnum úr líkama móðurinnar sem virðist því miður enn vera algengt viðhorf á sjúkrahúsum,“ segir hún.

Fyrir henni er þetta femínískt viðhorf líka. Þegar fæðingin var flutt inn á spítala í byrjun 20. aldarinnar hafi konur orðið að viðfangsefni og ekki með mikla rödd í fæðingarferlinu. „Mig langar að vera partur af þessari hreyfingu þar sem konur ganga fyrir í þessu náttúrulega ferli og fyrir mig sem femínista þá snertir þessi boðskapur mig djúpt,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×