Innlent

Vill að stjórn og framkvæmdastjóri LA láti af störfum

Sveinn Arnarsson skrifar
Sigurður Guðmundsson.
Sigurður Guðmundsson. Vísir/Pjetur/Vilhelm
Sigurður Guðmundsson, bæjarfulltrúi og oddviti A-lista Bæjarlistans, vill að stjórn LA og framkvæmdastjóri þess, Eiríkur Haukur Hauksson, verði vikið frá störfum. Þetta kom fram í bókun Sigurðar á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær í umræðum um fjárhagsstöðu Leikfélagsins.

Á fundi bæjarráðs kom fram að greiðslur úr bæjarsjóði fyrir allt árið 2014 skyldi flýtt til þess að LA gæti staðið við skuldbindingar sínar sem þegar hafa verið stofnaðar til vegna yfirstandandi leikárs. Bæjarráð gæti hins vegar ekki fært greiðslur frá 2015 til ársins 2014.

Með þessu er bæjarráði ljóst að Leikfélag Akureyrar getur ekki staðið við skuldbindingar sínar um framleiðslu á leiklist í byrjun næsta leikárs, 2014-2015.

Eiríkur Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri LA, vildi ekki tjá sig við blaðamann þegar Vísir náði tali af honum. Í undirbúningi væri bæði stjórnarfundur og starfsmannafundur þar sem farið yrði yfir stöðuna.

Nú eru hafnar samningaviðræður milli LA, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Með þeim samningaviðræðum reyna félögin að hagræða í rekstri sínum. Ljóst þykir að ef ekkert verður aðhafst er staða Leikfélagsins grafalvarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×