Innlent

Vill að ríkið aðstoði sveitarfélög vegna styttra bótatímabils

ingvar haraldsson skrifar
Halldór halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að ríkissjóður þurfi að koma til móts við sveitarfélög vegna styttingar bótatímabils.
Halldór halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að ríkissjóður þurfi að koma til móts við sveitarfélög vegna styttingar bótatímabils. vísir/daníel
Kostnaður sveitarfélaga vegna styttingar atvinnuleysisbótatímabils úr 36 mánuðum í 30 mánuði er áætlaður um 500 milljónir króna á næsta ári. Þetta segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Halldór telur að með styttingu bótatímabilsins sé verið að færa fé úr einum vasa í annan. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur gefið út að ríkisjóður spari sér um einn milljarð króna á ári með styttingunni.

Um 500 manns missa rétt til atvinnuleysisbóta um áramót og um 1.000 manns til viðbótar á árinu 2015 vegna aðgerðanna.

Að sögn Halldórs hefði þurft að að undirbúa aðgerðirnar betur og hafa meiri fyrirvara á þeim. „Við höfum farið fram á að farið verði í atvinnuátak samhliða styttingunni og að sveitarfélög fái hlut í almenna hluta tryggingargjaldsins. Kostnaður sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar hefur aukist úr 2,5 milljörðum árið 2009 í 5 milljarða á þessu ári að viðbættum þeim 500 milljónum sem við búumst við að bætist við á næsta ári,“ segir Halldór.

Halldór gagnrýnir einnig orð félagsmálaráðherra sem sagt hefur að sveitarfélögin þurfi í meira mæli að nýta sér verkefni atvinnuleysistryggingarsjóðs. „Hvaða verkefni? Við höfum kallað eftir því að farið verið í slíkt en það er ekkert átaksverkefni í gangi,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×