Innlent

Vilja vita hvort hafnfirskar löggur muni bera vopn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Felur bæjarráð bæjarstjóra að leita skýringa og svara við því hvort breytingar hafi orðið á þeirri grundvallarstefnu að lögregla skuli ekki vera búin skotvopnum við almenn störf sín
Felur bæjarráð bæjarstjóra að leita skýringa og svara við því hvort breytingar hafi orðið á þeirri grundvallarstefnu að lögregla skuli ekki vera búin skotvopnum við almenn störf sín Vísir/Getty
Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur farið fram á að bæjarstjóri leiti skýringa og svara við því hvort lögreglumenn í bænum muni bera skotvopn við almenn störf. Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi bæjarráðs í gær.

Skiptar skoðanir eru um nýtilkomna gjöf Norðmanna til Íslendinga, 250 hríðskotabyssur. Í tilkynningu sem Landhelgisgæslan sendi frá sér í gær kemur raunar fram að um þriðju gjöf Norðmanna á fjórum árum sé að ræða. 50 hríðskotabyssur bárust árið 2011 og tíu í fyrra. Heildarfjöldinn er því 310 hríðskotabyssur. Segir í tilkynningu gæslunnar að vopnin séu ekki öflugri en þau sem hafi verið í vopnasafni gæslunnar til þessa.

Lögreglan hefur staðfest að fjöldi lögreglumanna hefur farið á námskeið og æfingu í að skjóta með byssunum á geymslusvæði gæslunnar á Suðurnesjum. Vopnin eiga að vera til staðar hjá öllum embættum lögreglunnar á landinu.

„Í ljósi umræðu um vopnaburð lögreglu felur bæjarráð bæjarstjóra að leita skýringa og svara við því hvort breytingar hafi orðið á þeirri grundvallarstefnu að lögregla skuli ekki vera búin skotvopnum við almenn störf sín,“ segir í ályktun bæjarráðs.

Telur bæjarráð ástæðu til að árétta þá afstöðu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að ekki sé rétt að gera breytingar á þeirri meginreglu nema að undangenginni opinni umræðu í samfélaginu og að höfðu samráði við alla hlutaðeigandi.

Rósa Guðbjartsdóttir, Kristinn Andersen, Guðlaug Kristjánsdóttir, Gunnar Axel Axelsson, Adda María Jóhannsdóttir og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir sátu fundinn auk Haralds L. Haraldssonar bæjarstjóra og Kristjáns Sturlusonar sviðsstjóra.


Tengdar fréttir

Það sem við vitum um byssurnar frá norska hernum

Landhelgisgæslan hafði milligöngu um afhendingu á 150 MP5 hríðskotarifflum frá norska hernum til ríkislögreglustjóra. Formenn stærstu stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýna harðlega að svo mikið magn vopna hafi verið afhent lögreglunni án sérstaks samþykkis ráðherra eða umræðu í þinginu.

Einföld sala sem hefur endað í hneyksli

Norski fréttavefurinn VG segir byssuhneykslið geta orðið ríkisstjórn Íslands að falli. Þingi og þjóð leynt að byssurnar voru keyptar.

Byssurnar um borð í skipin

Landhelgisgæslan ætlar að nota þær eitt hundrað hríðskotabyssur sem hún fékk frá Norðmönnum um borð í skipunum sínum og í varahluti.

Lögreglan ætlar ekki að borga fyrir vopnin

Samkvæmt kaupsamningi Landhelgisgæslunnar og norska hersins átti að greiða jafnvirði 11,5 milljóna króna fyrir 250 hríðskotabyssur. Ríkislögreglustjóri á von á að fá 150 byssur án endurgjalds. Gæslan segist ekki hafa greitt fyrir byssurnar.

Ráðherrar sverja af sér vélbyssur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki haft nein afskipti af komu 250 MP5-hríðskotabyssa hingað til lands. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að lögreglan hafi heimild til að endurnýja búnað sinn án þess að ráðherra skipti

Stefnubreyting ef vopna á lögregluna

Fyrrveraandi innanríkisráðherra segir það hafa verið rætt í mörg ár hvort vopna ætti almennu lögregluna. Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir ekki búið að ákveða að hafa vopn í öllum lögreglubílum.

Byssubrand(ar)ar ríkisstjórnarinnar

Meðlimir ríkisstjórnarinnar og dyggir stuðningsmenn vilja gera lítið úr umræðunni um vélbyssuvæðingu lögreglunnar með gamansemina að vopni.

Landhelgisgæslan reiknar ekki með að borga

Forstjóri Landhelgisgæslunnar reiknar ekki með að Gæslan greiði fyrir þær 250 hríðskotabyssur sem norski herinn seldi henni. Ráðherrum hafi ekki verið greint frá kaupunum en aðilar innan innanríkisráðuneytisins hafi vitað af þeim.

MP5 sögð öruggari en skammbyssa

Ekkert lögregluembættanna hefur enn farið fram á að fá MP5-hríðskotabyssur til afnota en yfirmaður lögreglunnar á Akureyri segir hríðskotabyssurnar öruggari en skammbyssur og því verði líklega farið fram á að fá þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×