Innlent

Vilja veitingastað við samræktunarstöð

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hérna eru þau Ragnheiður, Ragnar Ingi, Soffía og Svanhvít Lilja að huga að plöntunum.
Hérna eru þau Ragnheiður, Ragnar Ingi, Soffía og Svanhvít Lilja að huga að plöntunum.
Ragnheiður Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra fyrirtækisins Svinna, vinnur að því ásamt nokkrum líffræðinemendum að koma á fót fyrirtæki sem mun reka samræktunarstöð þar sem rækta á grænmeti, ávexti, kryddjurtir og tilapíu sem er vinsæll eldisfiskur.

Þá stendur og til að reisa veitingastað við samræktunarstöðina þar sem afurðirnar verða reiddar fram. Einnig er gert ráð fyrir að gestir og gangandi fái að taka þátt í ræktuninni. Verður það jafnvel stílað nokkuð inn á ferðamenn.

Tilapía Þessi fiskur er stundum kallaður beitarfiskur en hann er á meðal vinsælustu fiska hjá neytendum í Bandaríkjunum og víðar.
Nú þegar hefur Svinna reist samræktunarstöð þar sem tilapían svamlar í kerum og losar köfnunarefni í vatnið sem síðan vökvar og nærir plönturnar.

„Þetta gengur svo vel að við erum að huga að því að stofna fyrirtæki í kringum þetta,“ segir Ragnheiður. Ragnar Ingi Danner og Soffía K. Magnúsdóttir tileinka þessu verkefni krafta sína í meistaranámi sínu í líffræði við Háskóla Íslands og njóta einnig liðveislu Svanhvítar Lilju Viðarsdóttur sem stundar nám við Landbúnaðarháskólann.

Auk þess að þróa ný búnaðarstörf tekur Ragnheiður einnig þátt í vinnu sem snýr að gömlum búskaparháttum því nú er hún við viðhaldsstörf á bænum Felli í Mýrdal en hann var reistur árið 1901 og var lengi í eigu langafa hennar, Hallgríms Brynjólfssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×