Innlent

Vilja varanlega lausn á húsnæðisvanda Listaháskólans

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Húsnæði LHÍ á Sölvhólsgötu.
Húsnæði LHÍ á Sölvhólsgötu. Vísir/Anton
Sex þingmenn Pírata og tveir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli mennta- og menningarmálaráðherra að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands. Þannig vilja þau leysa til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langt skeið.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að mikill kostnaður felist í því að hafa deildir skólans dreifðar og að algjör óvissa ríki um framtíð skólans meðan húsnæðisástand hans er eins og það er.

„Miklar áhyggjur eru af myglusvepp í húsakynnum hans, en skólinn leigir bæði frá ríkinu og einkaaðilum og ver miklu fjármagni í aðstöðu sem hentar stofnuninni ekki. Tónlist er til dæmis kennd í húsi með lélegri kyndingu sem skortir hljóðeinangrun, leiklist er kennd án viðunandi leikrýmis, myndlistarkennslan er í gömlu sláturhúsi og svo mætti lengi telja.“

Þá vekur einnig athygli að lítið sem ekkert aðgengi er fyrir hjólastóla í húsnæði skólans. Þrátt fyrir allt þetta borga nemendur Listaháskólans hærri skólagjöld en flestir aðrir háskólanemendur á Íslandi.

„Við bætist að í mörgum byggingum er ekkert aðgengi fyrir fatlaða, aukinn kostnaður hlýst af því að dreifa starfseminni og plássleysi og óvissa veldur því að ekki er hægt að gera góðar langtímaáætlanir. Óvíst er hvort skólinn fái nægt fjármagn til að halda áfram að leigja húsnæði en miklar hækkanir hafa verið á húsnæðismarkaði á sama tíma og skorið hefur verið niður hjá skólanum. Við bætist að nemendur greiða mun hærri skólagjöld en aðrir háskólanemendur á Íslandi þrátt fyrir gífurlegan mun á þeirri aðstöðu sem þeir þurfa að búa við.“

Nemendur skólans vöktu athygli á húsnæðisvanda skólans í síðustu viku með samfélagsmiðlaátakinu #LHÍmyglan og birtu fjölmargar myndir og myndbönd af ástandinu.

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, nemi við leiklistardeild skólans, sagði til að mynda að hún og flest bekkjarsystkini sín hefðu fundið fyrir einkennum vegna myglusvepps í skólanum.


Tengdar fréttir

Rannsaka hvort mygla sé í LHÍ

Fasteignaumsýsla ríkissjóðs skoðar nú hvort myglusvepp sé að finna í húsnæði Listaháskóla Íslands. Þetta staðfestir Ólafur Hallgrímsson, umsjónarmaður húseigna skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×