Innlent

Vilja Þorstein Sæmundsson í Flatjörðungafélagið

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur og Helgi Hrafn telja málflutning Þorsteins einkennast af vanþekkingu og hreinum og klárum rangfærslum.
Pétur og Helgi Hrafn telja málflutning Þorsteins einkennast af vanþekkingu og hreinum og klárum rangfærslum.
„Ég legg til að þessi ágæti þingmaður sæki um aðild að Flatjörðungafélaginu,“ segir Pétur Þorsteinsson formaður Snarrótar.

Viðtal Vísis við Þorstein Sæmundsson, þingmann Framsóknarflokksins, um stefnu í fíkniefnamálum hefur vakið verulega athygli. Þorsteinn telur vert að herða tökin, veita meiri fjármunum til lögreglu og tollgæslu með það fyrir augum að skrúfa fyrir framboðið. Tilefni þessarar umræðu eru svör innanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata við lögregluaðgerðum þar sem leitað var á gestum tónlistarhátíða og fíkniefni gerð upptæk. Helgi Hrafn, Pétur og Grímur Atlason lýstu í kjölfarið yfir mikilli skömm á þeim aðgerðum, en Þorsteinn telur þau „köpuryrði“ lýsa miklu ábyrgðarleysi. Ekki sé hægt að sitja hjá meðan ungmenni steypa sér í glötun og látast vegna fíkniefna.

Lítill árangur af stefnu undanfarinna áratuga

„Þrátt fyrir að öllum ráðum hafi verið beitt í áratugi hef ég enn ekki séð nokkurt löggæslulið í heiminum hæla sér af því að ná meira en 5-10 prósent þeirra efna sem smyglað er til landa þeirra. Það er einfaldlega sá skattur sem smyglarar greiða fyrir að koma 90-95 prósent varningsins á markað,“ segir Pétur og vísar til orða Þorsteins:

„Nokkur ungmenni látast á hverju ári vegna neyzlu fíkniefna. Hvort ætli þeim þyki það fyndið eða sorglegt. Lögreglan reynir með aðgerðum sínum að stemma stigu við neyzlu ungmenna. Lögreglan þyrfti heldur meira fjármagn til starfa sinna en köpuryrði frá þessum.“

Þorsteinn er staðfastlega þeirrar skoðunar að betra sé að herða tökin og veita meiri fjármunum til lögregluyfirvalda til að skrúfa fyrir framboðið.
Pétur spyr: „Mér leikur forvitni á að vita hvaðan þingmaðurinn hefur þessar upplýsingar og bið hann að deila heimildum sínum hið snarasta. Sjálfur gekk ég eins og grenjandi ljón um stofnanir í vor til að reyna að berja upp staðreyndir um dauðsföll af völdum ólöglegra efna. Þær eru einfaldlega ekki til, tölfræði okkar á því sviði er algjörlega ónýt.“

Það sem hljómar vel í eyrum aldraðra kjósenda Framsóknarflokksins

Pétur nefnir sem dæmi síðustu samantekt Rannsóknarstofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði nær til ársins 2009. „Landlæknisembættið er múlbundið af fáránlegum reglum frá Persónuvernd sem bannar að haldið sé utanum eitrunardauðsföll. Hið rétta er að dauðsföll af völdum ólöglegra efna eru blessunarlega fátíð á Íslandi og gætu verið enn færri ef við bærum til þess gæfu að haga fíknivörnum okkar með skynsamlegri hætti en nú er gert.

Pétur telur Þorstein Sæmundsson eiga heima í Flatjörðungafélaginu.
Því miður bætir þingmaðurinn engu við sem orðið gæti til úrbóta, en segir það sem hann „heldur“ að hljóti að vera satt, og það sem hann telur að hljómi best í eyrum aldraðra kjósenda Framsóknarflokksins.“

Ólögleg efni pennadropi í áfengishafið

Pétur getur þess að endingu, „til gamans að Vínbúðin seldi 724.000 lítra af áfengi fyrir Verslunarmannahelgina í fyrra. Mér kemur auðvitað ekkert við hvað aðrir þjóra, en það lítilræði af ólöglegum efnum sem lögreglunni tókst að klóra upp er augljóslega pennadropi í áfengishafið.

Hér er tengill á síðustu áreiðanlegu heimildir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, og svo getur hver maður spurt sig hvar hinn raunverulegi vandi liggur í þessum málaflokki. Eru ólöglegu efnin að drepa fólk eða lögleg lyf og áfengi? Önnur efni eru væntanlega afgas af bílum og annað sem sem ýmist nýtist til sjálfsvíga eða slysfara.“

Þorsteinn fer með rangt mál

Helgi Hrafn furðar sig ekki síður á ummælum kollega síns á þingi og segir hann hreinlega fara með rangt mál. Hann vísar til orða Þorsteins: „Til að fara inná sakaskrá vegna fíkniefnaneyslu og eða vörslu þurfa menn að hafa dágóðan skammt í fórum sínum.“

Helgi telur málflutning Þorsteins ekki standast neina skoðun. „Ég meina, ef hann vill ekki eltast við neytendur, þá ætti hann að styðja það að hætta að eltast við neytendur.“
Þetta segir Helgi Hrafn kolrangt. „Menn fara á sakaskrá fyrir öll vímuefnabrot. Ég hefði haldið að hann væri meðvitaður um þetta? Annars er alltaf áhugavert að fólk sem styður þetta fyrirkomulag eða jafnvel vill herða þetta, gera alltaf lítið úr refsingunum. Samt finnst þeim mikilvægt að hafa refsingar og helst hafa þær tíðari. En samt afsaka þeir þær með því að þær séu svo fábrotnar.“

Segir málflutning Þorsteins hriplekan

Helgi Hrafn vitnar enn í téð viðtal við Þorstein: „Þurfum að gera það. Til þess að losna við það að eltast við krakka sem eru með litla neysluskammta, þá eigum við að koma í veg fyrir það með því að stöðva framboðið.“

Helgi segist ekki geta skilið svar innanríkisráðherra betur en svo að af öllum þessum málum hafi fundist „tveir“ sölumenn á „þremur“ hátíðum.

„Ég meina, ef hann vill ekki eltast við neytendur, þá ætti hann að styðja það að hætta að eltast við neytendur. Ef hann vill eltast við sölumenn og dreifingaraðila, þá er um að gera að forgangsraða peningum og vinnu lögreglunnar í þá átt, frekar en að eyða öllu þessu púðri og eftirliti, friðhelgi og afskiptum af friðsömum borgurum, til þess að bösta skitna tvo dílera á þremur hátíðum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×