Innlent

Vilja tala við sameinaða verkalýðshreyfingu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson er framkvæmdastjóri SA. Samtökin segja kröfur verkalýðsfélaga ósamstæðar og óbilgjarnar.
Þorsteinn Víglundsson er framkvæmdastjóri SA. Samtökin segja kröfur verkalýðsfélaga ósamstæðar og óbilgjarnar. Fréttablaðið/GVA
Í yfirstandandi kjarasamningum segjast Samtök atvinnulífsins (SA) hafa lýst vilja til þess að ræða sérstaklega hækkun lægstu launa til þess að þau dugi betur til lágmarksframfærslu.

„Svo það sé mögulegt þarf að ná sátt um að sú hækkun verði ekki fyrirmynd að almennum launahækkunum,“ segir í pistli um stöðu viðræðnanna, sem birtur var á vef samtakanna í gær.

„Svo unnt sé að ná slíkri sátt verður verkalýðshreyfingin að koma sameinuð að samningaborðinu en ekki sundruð líkt og nú.“

Í pistlinum er því lýst hvernig SA hafi lagt til að farnar yrðu „nýjar leiðir“ á vinnumarkaði, dagvinnulaun yrðu hækkuð sérstaklega umfram almennar samningsbundnar hækkanir um leið og álagsgreiðslur yrðu lækkaðar.

„Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika líkt og tíðkast í nágrannalöndum Íslands.“

Breytingar í þessa veru telja samtökin að yrðu „mjög jákvæðar“ fyrir bæði launafólk og atvinnulífið í heild sinni.

„Þrátt fyrir þetta fjölgar kjaradeilum á borði ríkissáttasemjara og lýstu VR/LÍV og Flóabandalagið yfir árangursleysi viðræðna og hafa síðarnefndu félögin hafið undirbúning verkfalla,“ segir þar jafnframt og kröfur verkalýðsfélaga sagðar óbilgjarnar og líklegar til að leiða til efnahagsþrenginga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×