Erlent

Vilja skylda foreldra til að láta bólusetja börn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ekki eru allir sammála um það hvort það eigi að vera skylda fyrir foreldra að láta bólusetja börn.
Ekki eru allir sammála um það hvort það eigi að vera skylda fyrir foreldra að láta bólusetja börn. Vísir/Vilhelm
Norski Verkamannaflokkurinn telur að setja þurfi bólusetningar barna í lög. „Við teljum að það sé kominn tími til að taka það skref,“ segir Tuva Moflag meðlimur flokksins en hún er einnig meðlimur í heilbrigðisnefnd þingsins. Hún telur mjög alvarlegt að sumir foreldrar geri börnin sín berskjölduð fyrir hættunum sem fylgja því að vera óbólusett.

Í þessari viku voru greind þrjú mislingatilfelli í austurhluta Noregs en allir einstaklingarnir höfðu verið á ferðalagi erlendis, enginn þeirra var bólusettur. Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK er bólusetningartíðnin í Noregi þannig að 95,9 prósent tveggja ára barna í landinu voru bólusett samkvæmt tölum frá árinu 2016 en viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er að 95 prósent ættu að vera bólusett.

Samkvæmt frétt NRK hefur Verkamannaflokkurinn lagt til að sem tilraunaverkefni verði bólusetningar gerðar að skyldu í Osló. Það er ekki ljóst hvort þetta frumvarp fái stuðning annarra flokka en mörgum finnst að með þessu sé of langt gengið.

NRK hefur eftir Høyres Sveinung Stensland í heilbrigðisnefndinni að bólusetningarkerfið þurfi að vera „byggt á trausti.“  Åse Michaelsen lýðheilsuráðherra hefur einnig látið í ljós efasemdir um frumvarpið.

Verkamannaflokkurinn leggur ekki til að foreldrum sem láta ekki bólusetja börnin sín verði refsað. Verður einfaldlega aðhald með þeim foreldrum og telur Moflag að það verði nóg til að hafa áhrif. Gagnrýnendur telja að þvinganir sem þessar gætu haft öfug áhrif, fleiri foreldrar láti bólusetja börn þegar það er þeirra val.


Tengdar fréttir

Fjögurra vikna íslensk stúlka hætt komin vegna kíghósta

Foreldrar Ástu Aðalheiðar segja frá veikindum hennar til þess að minna fólk á mikilvægi bólusetninga, en kíghóstasmitið kom líklega frá vinafólki þeirra sem valdi að láta ekki bólusetja börnin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×