Innlent

Vilja samstarf um geldingu villikatta

Ingvar Haraldsson skrifar
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri Villikatta.
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri Villikatta.
Dýraverndarsamtökin Villikettir hafa farið þess á leit við bæjarfélög víðs vegar um landið að gerður verði samningur við samtökin um geldingu villikatta. Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri Villikatta, segir samtökin hafa látið framkvæma hátt í 400 geldingar á villiköttum síðustu þrjú ár. Eftir geldinguna sé dýrunum sleppt á ný.

Markmiðið sé að hjálpa dýrunum á mannúðlegan hátt. „Með geldingum hætta slagsmál vegna yfirráða, þá fækkar meiðslum,“ segir Arndís. 

Þá hafi kettlingar fæðst um hávetur sem átt hafi litla lífsvon og drepist úr vosbúð á nokkrum vikum. „Við erum að koma í veg fyrir þessi skelfilegheit sem dýrin hafa farið í gegnum reglulega.“ Arndís segir allar geldingar framkvæmdar af dýralæknum. Samtökin hafi verið í samstarfi við fjölmarga dýralækna sem allir hafi verið tilbúnir að gefa vinnu sína. Arndís segir samtökin hafa alls staðar fengið jákvæð viðbrögð við bóninni.

Í bréfi sem Villikettir sendu ráðamönnum Ísafjarðarbæjar segir að aðferðin hafi reynst spara sveitarfélögum fé sem annars hefði farið í kostnað vegna kaupa á þjónustu meindýraeyða. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×