Innlent

Vilja opna umræðuna um blettaskalla

Erla Hlynsdóttir skrifar
Þuríður Helga Jónasdóttir hefur verið með blettaskalla, eða óútskýrðan hármissi, í átján ár. Hún hefur lært að lifa með sjúkdómnum og opnaði nýverið vefsíðu, ásamt annarri konu, til að opna umræðuna.

Þuríður Helga segist hafa fengið áfall þegar hún byrjaði fyrst að missa hárið. Hún var þá um þrítugt og hafði alltaf verið með sítt rautt hár.

Hún segist hafa verið í hálfgerðri afneitun þegar skallablettir byrjuðu að myndast.

„Svo þegar baðvaskurinn stíflaðist og baðkarið stíflaðist þá hugsaði ég með mér: Jæja, ég nenni þessu ekki lengur. Ég fór fyrst og lét klippa mig alveg stutt og svo sá ég að þa hafði ekkert að segja, það hafði ekkert að segja, hárið hélt áfram að detta af mér. Ég fékk svo vinkonu mína til að krúnuraka mig. Mér leið ekki vel þannig og gekk alltaf með húfu, ég lét sumsé ekki sjá mig úti sköllótta," segir hún.

Þuríður komst nýverið í kynni við aðra konu með blettaskalla ákváðu þær að opna vefsíðu, sem nálgast má með því að smella hér.

„Við vissum báðar og fundum að það vantaði vettvang fyrir fólk með þennan sjúkdóm, líka bara stuðningsnef og upplýsingar."

Ekki er vitað hversu margir þjást af blettaskalla.

„Nei, það eru engar tölur til um þetta. Kannski líka vegna þess að sjúkdómurinn er þess eðlis að sumir fá þetta kannski í stuttan tíma og læknast og finna aldrei fyrir því aftur. Sá þáttur sem talinn er sameiginlegur með öllum er að þetta orsakist í kjölfarið á álagi."

Þuríður er nokkuð vel hærð í dag en mest ber á blettaskallanum á hnakkanum þar sem sums staðar er ekkert hár.

„Ég bara lifi með þessu núna og er ánægð núna því maður getur aðeins fiktað í því. En mér þykir mjög líklegt að það muni detta af mér," segir hún.

Nánari umfjöllun má sjá í meðfylgjandi myndskeiði hér að ofan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×