Lífið

Vilja opna augu fólks

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Rakel og Rut eru spenntar fyrir gerð myndarinnar en auk þeirra koma þær Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir að myndinni.
Rakel og Rut eru spenntar fyrir gerð myndarinnar en auk þeirra koma þær Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir að myndinni. Vísir/AndriMarinó
„Þetta er ekki falin myndavél að fletta ofan af einhverju. Þetta er lausnamiðuð og jákvæð heimildarmynd,“ segir Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi sem vinnur nú að gerð heimildarmyndarinnar Awakening World. Myndin fjallar um ofneyslu og sóun á mat og fatnaði og er markmiðið að reyna að leita svara við þessu sívaxandi vandamáli.

Rut Sigurðardóttir tekur myndina upp, Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir skrifaði handritið og framleiðir ásamt Rakel og Sigríður Halldórsdóttir er kynnir og leiðir áhorfendur í gegnum myndina.

Umfjöllunarefnið er þeim öllum hugleikið og segir Rakel það aðkallandi og að markmiðið með heimildarmyndinni sé að vekja fólk til umhugsunar.

Rakel hefur kynnt sér þessi málefni talsvert síðastliðin ár og er stofnandi Vakandi, samtaka sem stuðla vilja að vitundarvakningu um sóun matvæla. Hún er einnig framleiðandi hjá leikhópnum Vesturport en myndin er unnin í samstarfi við Vakandi og Vesturport.

„Ég stofnaði Vakandi fyrir tveimur árum og síðan þá hef ég verið að pæla svo mikið í þessu, maður getur eiginlega ekki hætt. Þetta er svo galið og keðjuverkandi og maður er alltaf að pæla. Mín helsta spurning er: Af hverju erum við að sóa svona miklu? Það er svo stutt síðan við vorum ekki að því,“ segir hún.

Rakel segir heimildarmyndir góðan miðil til þess að vekja fólk til umhugsunar en Awakening World verður á ensku. „Það er myndrænt og nær til svo margra. Það er mikilvægt að gera svona mynd til þess að opna augu fólks.“

Í enda næsta mánaðar ferðast þær til Skandinavíu og síðar til Bretlands þar sem þær munu meðal annars taka viðtöl við viðmælendur hjá fatarisunum Primark og H&M og mun Sigríður spyrja þá spjörunum úr. Rakel leggur þó áherslu á að myndin eigi að vera lausnamiðuð og jákvæð og að markmiðið sé að stuðla að einhvers konar breytingum og að ferðast verður á milli á eins umhverfisvænan máta og mögulegt er. „Svona miðað við að við búum á eyju,“ segir hún og hlær.

„Við ákváðum að velja þau lönd af því þau eru líkust Íslandi í neyslu og öðru og reyna að komast að því af hverju við erum að sóa svona miklum mat og tískutengdum varningi,“ segir hún og bætir við: „Það eru ekki til tölur um Ísland en Landvernd er að taka saman tölur núna. Tölur frá Evrópusambandinu segja að við sóum 30% af mat sem framleiddur er og í Ameríku eru það 40-50%,“ segir Rakel sem sjálf telur að Ísland sé talsvert nær Ameríku í þessum málaflokki.

Stefnt er á að tökum ljúki í október og standa vonir til að mögulegt verði að frumsýna myndina í kringum næstu jól. „Það er náttúrulega aðalneyslumánuðurinn. Þá detta allir í einhverja sturlun í verslun, bæði í mat og öðru. Það væri gaman ef það næðist en við sjáum hvernig það fer.“

Þær vinna nú að því að fjármagna gerð myndarinnar inn á vefsíðunni indiegogo.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×