Innlent

Vilja óháð mat á hagmunum Íslendinga af hvalveiðum

Bjarki Ármannsson skrifar
Meðal annars vilja þingmennirnir meta verðmæti útflutnings hvalkjöts og kostnað stjórnvalda við kynningu vegna hvalveiðistefnunnar.
Meðal annars vilja þingmennirnir meta verðmæti útflutnings hvalkjöts og kostnað stjórnvalda við kynningu vegna hvalveiðistefnunnar. Vísir/Samsett
Níu þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að óháð mat fari fram á hagmunum Íslendinga vegna hvalveiða í íslenskri lögsögu. Meta eigi verðmæti útflutnings á hvalkjöti, kostnaður við kynningu af hálfu stjórnvalda vegna hvalveiðistefnunnar og álits fræðimanna, hagsmunaaðila og viðeigandi félagasamtaka um áhrif hvalveiðistefnu stjórnvalda á afkomu ferðaþjónustu og á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Hvalveiðar Íslendinga hafi lengi verið umdeildar og bakað okkur óvinsældir nokkurra erlendra ríkja, einna helst Bandaríkjanna. Skemmst er að minnast þess að í byrjun apríl sendi Barack Obama Bandaríkjaforseti frá sér minnisblað þar sem hann gagnrýndi harðlega veiðar Íslendinga á langreyði og sagði þær stefna tegundinni í voða. Sagðist hann vilja endurskoða samstarf ríkjanna tveggja í ljósi hvalveiðanna.

Í nýju tillögunni kemur fram að leggja þurfi mat á bæði efnahagsleg og pólitísk áhrif þessara aðgerða Obama. Sömuleiðis þurfi að kanna hvort niðurstöður vísindarannsókna bendi til þess að hvalveiðar séu nauðsynlegar til þess að halda jafnvægi í lífríki sjávar, líkt og „iðulega“ hafi komið fram í umræðu um veiðarnar.

Þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson eru flutningsmenn tillögunnar, sem lesa má í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Innan við helmingur styður veiðar á langreyðum

Tæplega helmingur landsmanna, um 46 prósent, er hlynntur veiðum á langreiðum samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Hlutfallið var 57 prósent í júní í fyrra. Tæplega fjórðungur Íslendinga er andvígir veiðum á langreyðum.

Sakar hvalaverndunarsinna um lygar

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis sakar fulltrúa Alþjóða dýraverndunarsjóðinn um að ljúga vísvitandi um hvalveiðar Íslendinga til að auka andstöðu við veiðarnar.

Kjötið beint til Japan

Fyrir dyrum er ákvörðun Bandaríkjaforseta vegna hvalveiða Íslendinga í viðskiptaskyni. Flutningaskipið Alma er á leið til Japan með um 2.000 tonn af hvalkjöti. Hvalur hf. hefur verið gerður afturreka með umskipun á hvalkjöti í evrópskum höfnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×