Innlent

Vilja lengja fæðingarorlof upp í heilt ár

Sveinn Arnarsson skrifar
Þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram frumvarp á þingi um að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf. Svandís Svavarsdóttir, segir mikilvægt að fara í þessa kerfisbreytingu sem fyrst.

„Þetta er mikilvægt. Þarna er um að ræða grundvallarmál fyrir allar smábarnafjölskyldur óháð efnahag,“ segir Svandís. „Samfélagið virðist ekki taka þátt í lífi barna milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er tímaskekkja.“

Frumvarpið gerir ráð fyrir að fæðingarorlofið lengist í tveimur þrepum, áramótin 2018 og 2019. Í ársbyrjun 2019 eiga foreldrar fimm mánaða fæðingarorlofsrétt hvort um sig og tvo mánuði til skiptanna.

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra leggur til í þingmálaskrá hækkun á fæðingarorlofi en telur ekki ráðlegt að lengja orlofið að sinni. Er það sama afstaða og Samtök atvinnulífsins lögðu til á síðasta kjörtímabili þegar samtökin lögðust gegn lengingu orlofs en studdu hækkun greiðslna úr sjóðnum.

„Nú þarf að brúa bilið. Það á ekki að fara eftir félagslegri stöðu og efnahag hvort barnafjölskyldur geti dekkað þetta bil. Okkar frumvarp kemur til móts við fleiri og er að okkar mati réttari forgangsröðun en ríkisstjórn Samtaka atvinnulífsins er að vinna að,“ bætir Svandís við. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×