Innlent

Vilja lækka hámarkshraða á hluta Miklubrautar til að draga úr hávaða-og svifryksmengun og auka öryggi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að lækka hámarkshraða á Miklubraut í Hlíðum frá Bústaðavegi og Snorrabraut að Kringlumýrarbraut úr 60 kílómetra hraða á klukkustund í 50 kílómetra hraða á klukkustund.
Umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að lækka hámarkshraða á Miklubraut í Hlíðum frá Bústaðavegi og Snorrabraut að Kringlumýrarbraut úr 60 kílómetra hraða á klukkustund í 50 kílómetra hraða á klukkustund. vísir/vilhelm

Umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að lækka hámarkshraða á Miklubraut í Hlíðum frá Bústaðavegi og Snorrabraut að Kringlumýrarbraut úr 60 kílómetra hraða á klukkustund í 50 kílómetra hraða á klukkustund.

Erindi þessa efnis kom frá samgöngudeild umhverfis-og skipulagssviðs og var vísað til starfshóps varðandi umferðarhraða í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis-og skipulagsráðs, segir að með því að lækka hámarkshraðann sé verið að koma til móts við óskir íbúa sem hafi undanfarið kvartað mikið yfir þungri og hraðri bílaumferð í gegnum hverfi sín. 

Með því að lækka hámarkshraðann sé meðal annars vonast til að hávaða-og svifryksmengun minnki.

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB, gagnrýnir að stefnt sé að því að lækka hámarkshraðann og vill meina að svifryksmengun muni aukast. Hjálmar segir að þessu sé meirihlutinn í borginni ósammála og vill meina að hvoru tveggja, hávaði og mengun, aukist eftir því sem hraðinn er meiri. Þá sé þetta líka spurning um öryggi í umferðinni.

„Við erum einfaldlega annarrar skoðunar og íbúar borgarinnar yfirleitt líka því að á íbúafundum er það yfirleitt mál númer 1, 2 og 3 að umferðin sé of hröð. Það er í fyrsta lagi þannig að mikill hraði veldur hættu. Það var einu sinni í gangi hérna slagorðið „Hraðinn drepur.“ Það skiptir til dæmis mjög miklu máli hvort að bíll sé á 50 kílómetra hraða eða 30 kílómetra hraða upp á slysahættu,“ segir Hjálmar.

Vegakaflinn sem um ræðir er þjóðvegur í þéttbýli og því þarf Vegagerðin að koma að því ef lækka á hámarkshraðann.

„Borgin mun bæði þurfa samþykki lögreglunnar og vegagerðarinnar og við fengum einmitt fulltrúa Vegagerðarinnar og lögreglunnar á fund umhverfis-og skipulagsráðs til að ræða um þessi mál í síðustu viku og þar kom þessi vilji meirihlutans skýrt fram þannig að þessi samræða er farin af stað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×