Innlent

Vilja kæra höfundarréttarbrot í skólum

Snærós Sindradóttir skrifar
Miklu magni af ítarefni er dreift á meðal nemenda háskólans. Sé það frá erlendum höfundum liggja engir samningar fyrir um greiðslur vegna þess og því er það til dreifingar ólöglega.
Miklu magni af ítarefni er dreift á meðal nemenda háskólans. Sé það frá erlendum höfundum liggja engir samningar fyrir um greiðslur vegna þess og því er það til dreifingar ólöglega. Visir/Pjetur
Erlend höfundarréttarsamtök undirbúa aðgerðir gegn skólum og stjórnvöldum hér vegna skorts á samningi um afritun og dreifingu höfundarréttarvarins efnis.

Samningur við íslensku höfundarréttarsamtökin Fjölís er sagður úreltur. Því fái íslenskir höfundar aðeins brot af greiðslum fyrir afritun skólanna. „Staðan er sú að erlendir höfundar fá ekki neitt og okkur gengur mjög hægt að endurnýja þessa samninga. Íslenskir höfundar fá greitt samkvæmt forsendum sem menn gáfu sér 2008,“ segir Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Fjölís. Samtökin hafa sent ítrekunarbréf vegna þessa til menntamála- og fjármálaráðuneytisins.

Bandarísku höfundarréttarsamtökin Copyright Clearance Center og bresku samtökin Copyright Licensing Agency hafa hingað til frestað aðgerðum að beiðni Fjölís á meðn nýr samningur væri í burðarliðnum. En nú hafa samtökin óskað eftir því að Fjölís leiðbeini þeim í gegnum íslenskt lagaumhverfi þannig að erlendir höfundar fái greitt lögum samkvæmt.

Helga segir samninga hafa dregist úr hófi og ný ljón virðist sífellt í veginum. „Við höfum óskað eftir því að menn gangi í það hratt og örugglega að túlka ný lög um opinber fjármál sem mér skilst að séu aðalþröskuldurinn núna.“

Kannað var árið 2014 hversu miklu höfundarréttarvörðu efni væri dreift til háskólanema. Helga segir að í ljós hafi komið margföld notkun og allt erlent efni afritað ólöglega. „Samkvæmt höfundarréttarlögum á að greiða höfundarréttargreiðslur af því efni sem er afritað.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 4.maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×