Innlent

Vilja heimila kannabis í læknisfræðilegum tilgangi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata var einn af flutningsmönnum tillögunnar.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata var einn af flutningsmönnum tillögunnar. Vísir/Hanna
Sex Píratar lögðu í gær fram þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem heimili notkun og framleiðslu lyfjahamps.

Lyfjahampur er heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar voru Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Í ályktuninni kemur fram að notkun hampjurtarinnar sem lyfs eigi sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi. 

Þingmennirnir leggja til að við undirbúning frumvarpsins verði byggt á reynslu þeirra landa sem heimilað hafa notkun lyfjahamps en samkvæmt ályktuninni hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á læknisfræðilegum áhrifum lyfjahampsins og ábata fyrir sjúklinga af notkun hans. Rannsóknirnar hafa sýnt fram á að lyfjahampur hafi raunverulegt notagildi, meðal annars í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Meðal þeirra ríkja sem nú hafa heimilað notkun lyfjahamps eru Austurríki, Belgía, Kanada, Bretland og Bandaríkin.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×